Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 07. júní 2021 10:50
Ívan Guðjón Baldursson
Bandaríkin unnu Þjóðadeildina eftir dramatískan úrslitaleik
Mynd: EPA
Bandaríska landsliðið vann Þjóðadeild Concacaf í nótt eftir gríðarlega spennandi og afar dramatískan úrslitaleik gegn nágrönnum sínum frá Mexíkó.

Bæði lið mættu til leiks í Denver með sterk lið. Í liði heimamanna mátti finna menn á borð við DeAndre Yedlin, Sergino Dest, Weston McKennie, Giovanni Reyna og Christian Pulisic á meðan Mexíkóar mættu með Hirving Lozano, Hector Herrera og Andres Guardado meðal annars.

Jesus Corona kom Mexíkó yfir snemma leiks eftir að hafa komist inn í sendingu úr vörn en Giovanni Reyna jafnaði um miðbik fyrri hálfleiks eftir hornspyrnu.

Staðan var jöfn eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleiks og var leikurinn áfram jafn eftir leikhlé. Varamaðurinn Diego Lainez gerði laglegt mark til að koma Mexíkó aftur yfir á 79. mínútu en Weston McKennie jafnaði skömmu síðar eftir hornspyrnu.

Mexíkó var betra liðið í framlengingu en Bandaríkin fengu vítaspyrnu á 114. mínútu. Pulisic skoraði örugglega af punktinum og virtust heimamenn ætla að halda út þar til í uppbótartíma, þegar Andres Guardado steig á vítapunktinn fyrir Mexíkó á 124. mínútu.

Ethan Horvath, markvörður Club Brugge sem var skipt inn fyrir Zack Steffen á 69. mínútu, gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna meistaralega til að tryggja sínum mönnum titilinn.

Bandaríkin 3 - 2 Mexíkó
0-1 Jesus Corona ('2)
1-1 Giovanni Reyna ('27)
1-2 Diego Lainez ('79)
2-2 Weston McKennie ('82)
3-2 Christian Pulisic ('114, víti)
3-2 Andres Guardado, misnotað víti ('124)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner