Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 07. september 2020 15:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Vona innilega að Gylfi komi á óvart í vetur og nái loksins að sýna það sem hann hefur gert annarsstaðar"
Stuðningsmaður Everton - Þórður Snær Júlíusson
Ég í glænýja Phil Neville-búningnum mínum, fyrir fyrsta og eina heimaleik Everton í umspili fyrir meistaradeildina gegn Villareal 9. ágúst. Konan í Everton-búðinni spurði mig hvort ég væri viss þegar ég bað um Neville aftan á búninginn. Ég á líka Hibbert-búning.
Ég í glænýja Phil Neville-búningnum mínum, fyrir fyrsta og eina heimaleik Everton í umspili fyrir meistaradeildina gegn Villareal 9. ágúst. Konan í Everton-búðinni spurði mig hvort ég væri viss þegar ég bað um Neville aftan á búninginn. Ég á líka Hibbert-búning.
Mynd: ÞSJ
Blessi Lucas Digne.
Blessi Lucas Digne.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
Jarrad Branthwaite.
Jarrad Branthwaite.
Mynd: Everton
Tony Hibbert tæklar.
Tony Hibbert tæklar.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Everton er spáð 9. sæti deildarinnar.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, er mikill stuðningsmaður Everton og hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Everton af því að... Ég byrjaði að horfa á fótbolta árið 1985. Þá var Everton, með Trevor Steven og Neville Southall innanborðs, besta lið á Englandi og í Evrópu. Síðan, ekki svo mikið.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er?
Það var mjög langt, og ofsalega leiðinlegt. Everton-liðið mjög dapurt þorrann af tímabilinu, og Liverpool vann deildarmeistaratitil í fyrsta sinn í 30 ár. Það er fátt gott við þá stöðu. Þannig að þetta er eitt versta tímabil sem ég man eftir. Fyrir utan tímabilið þegar Sam Allardyce kom. Það var botninn.

Ég er spenntari í dag en ég var fyrir viku, þegar engir nýir leikmenn voru komnir um borð. En ég er líka smeykur við stemmningsleysið sem fylgir áhorfendalausum leikjum, gæðarýrnunina sem hiðu mikla leikjaálag gæti haft í för með sér og það að Everton geri það sem Everton gerir nær alltaf, sjálfseyði möguleikum sínum á árangri þegar von um slíkan vaknar. Ég hef lært það á 35 ára samfylgd að það er alltaf best að stilla væntingum í hóf. Það er betra að koma á óvart en að valda vonbrigðum.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila?
Jájá, margoft. Bjó meira að segja í Skotlandi um tíma og fór yfir til Liverpool til að fara á leiki. Hef, ef ég er að telja rétt, séð Everton með berum augum tólf sinnum. Hef séð þá vinna einu sinni, á móti KR á Laugardalsvelli 14. september 1995. Það er eiginlega magnað afrek, sérstaklega vegna þess að þarna hafa verið leikir sem á pappír áttu ekki að geta tapast. Síðast á móti þegar föllnu Fulham í fyrra.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag?
Flókin spurning. Mínir tveir uppáhaldsleikmenn undanfarin ár hafa verið bakverðirnir Tony Hibbert og Leighton Baines. Þeir eru hins vegar báðir hættir núna. Ætla samt að halda mig við bakverði og segja Lucas Digne. Blessi Lucas Digne.

Erfitt að sjá á eftir Baines?
Agalegt. Ég elska Leighton Baines.

Hversu stórt hlutverk mun Gylfi Þór leika í liði Everton á leiktíðinni?
Mér finnst því miður ólíklegt, miðað við þá miðjumenn sem eru að koma inn (Allan, James Rodriguez og Abdoulaye Doucouré) og hvernig síðasta tímabil spilaðist, að það verði stórt.

Gylfi á ansi verðugt verkefni fyrir höndum að vinna til baka stuðningsmennina, enda voru gríðarlegar væntingar gerðar til dýrasta leikmanns í sögu félagsins um að gera liðið betra. Það hefur alls ekki gerst. En ég vona innilega að Gylfi komi á óvart í vetur og nái loksins að sýna það sem hann hefur gert annarsstaðar í Everton-treyjunni. Það vita allir að hann er góður í fótbolta.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við?
Yannick Bolasie, Muhammed Besic, Cenk Tosun, Theo Walcott, Fabian Delph, Sandro...Ég gæti haldið lengi áfram.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur?
Jarrad Branthwaite. 195 sentimetra, átján ára, örvfættur hafsent sem náði að brjóta sér leið inn í liðið undir lok síðasta tímabils, og var geggjaður. En svo virðist eitt stykki James Rodriguez líka að vera að koma. Myndi fylgjast aðeins með honum líka.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja…
Hausinn myndi segja Kevin De Bruyne. En hjartað segir Troy Deeney. Sakna Duncan Ferguson svakalega sem leikmanns. Og Deeney er sá sem kemst næst því að vera jafn mikill skíthæll á velli.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann?
Já, hann er stórkostlegur. Glæsilegur, alltaf með öngul í annarri augabrúninni, er raðsigurvegari, eldklár og lætur menn augljóslega ekki komast upp með rugl. Hann virðist líka vera góð manneskja. Eins og aðstoðarmaðurinn hans Duncan Ferguson, þótt hann hafi ekki alltaf sýnt það á velli.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og felaginu?
Í ljósi þess að Everton hefur einungis unnið einn titil frá árinu 1987 (FA-bikarinn 1995) þá hefur ekki verið mikið fyrir stuðningsmenn að fagna. Eftirminnilegast fyrir mig er ágóðaleikur fyrir Tony Hibbert gegn AEK frá Aþenu á Goodison Park 8. ágúst 2012. Hann hafði spilað 309 leiki á tíu árum án þess að skora þegar Everton fékk aukaspyrnu á 53. mínútu. Hibbert skaut, frekar illa, úr henni og boltinn lak inn. Stuðningsmenn höfðu árum saman hótað því að ef Hibbert myndi skora myndu þeir framkvæma uppþot (með borðum sem á stóð: „Hibbo Scores – We Riot“). Og þeir gerðu nákvæmlega það. Hundruð stuðningsmanna ruddust inn á völlinn og stöðva þurfti leikinn í nokkrar mínútur til að rýma hann. Það er, að því sem ég best veit, einsdæmi í fótboltasögunni að það hafi átt sér stað innrás á völl skömmu eftir leikhlé í æfingaleik á undirbúningstímabili. En þegar þú heldur með liði sem vinnur aldrei neitt þá skipta litlu sigrarnir enn meira máli. Og þess vegna var þetta mark, sem ég horfði á í beinni í gegnum dapra nettengingu á tölvunni minni, í mínum huga tær knattspyrnuleg fegurð.

Er skiljanlegt að Jordan Pickford sé aðalmarkvörður enska landsliðsins?
Út frá frammistöðu með enska landsliðinu: já. Út frá frammistöðu með Everton síðastliðið ár: óskiljanlegt.

Í hvaða sæti mun Everton enda á tímabilinu?
Hausinn segir áttunda. Hjartað segir alltaf meistaradeildarsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner