Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 08. apríl 2021 23:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ævar í pásu eins og er - „Verið númer eitt síðan ég var fimm ára"
Ævar og Rúnar Páll
Ævar og Rúnar Páll
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rifinn niður af Hólmberti í fagnaðarlátum
Rifinn niður af Hólmberti í fagnaðarlátum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjó
Eyjó
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ævar kom inn á í einum leik síðasta sumar
Ævar kom inn á í einum leik síðasta sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Hilmar Árni sáttur með Ævar þarna
Hilmar Árni sáttur með Ævar þarna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar sýndi ákvörðun Ævars skilning
Rúnar sýndi ákvörðun Ævars skilning
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
„Hann er bara hættur eins og staðan er núna. Hann ætlar að taka sér pásu frá fótbolta, hann er að vinna mikið og sinnir því vel," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, í viðtali á dögunum. Rúnar talar þarna um Ævar Inga Jóhannesson. Ákveðin óvissa ríkti um hvort Ævar yrði með Stjörnunni í sumar en hann rann út á samningi eftir síðasta tímabili.

Ævar hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár og ræddi um þau í viðtali í nóvember. Fréttaritari heyrði í Ævari eftir viðtalið við Rúnar og spurði hann út í stöðuna á sér og hvernig hans þankagangur er þessa dagana.

Viðtalið frá því í nóvember:
„Auðvelt að klífa fjallið þegar þú sérð toppinn en ef hann birtist aldrei ertu fljótur að þreytast"

„Það er rétt sem Rúnar sagði, ég er í pásu núna en er ekkert að gefa út að ég sé hættur. Eins og staðan er núna þá er ég líklegast ekki að fara spila í sumar. Svo veit maður aldrei, það getur breyst hvenær sem er," Ævar Ingi í dag.

„Ég hef ekki verið að æfa fótbolta frá því síðasta tímabil lauk en er að halda mér í toppstandi. Ég fór reyndar aðeins að sprikla og tókst að fá í nárann aftur, það var svona smá bögg.“

Er í pásu eins og er
Hefuru fengið einhverjar fyrirspurnir um að mæta á æfingar?

„Já, úr nokkrum áttum. Svarið er það sama, áður en einhver ákvörðun yrði tekin þá myndi ég tala við Stjörnuna. Þeir töluðu við mig um hvort ég vildi ekki halda áfram. Ég og Rúnar spjölluðum saman um það og ég sagðist ætla að hafa samband við þá þegar ég myndi nálgast fótboltann aftur. Ég svara fyrirspurnum þannig að ég sé í pásu.“

Hefur velt því fyrir sér
Hefur komið til greina að fara í fótbolta til að spila fótbolta, minna hugsa um æfingar og svoleiðis, þá fara í lið í 2. eða 3. deild?

„Ég hef alveg pælt í því, ég fór á æfingar með einu liði og þar einmitt meiddist ég. Málið er að aðgerðin síðasta sumar virkaði ekki og skrokkurinn er þannig að hann höndlar ekki mikið álag eins og er. Ég er á fullu að vinna í því og markmiðið með því að kúpla sig út var að sjá hvernig líkaminn myndi bregðast við öðrum æfingum og öðrum hreyfingum. Það kemur til greina og ég hef alveg velt því fyrir mér. Þetta er allt opið hjá mér, þó ég sé í pásu núna.“

Slökkti ekki ef það var fótbolti í sjónvarpinu
Ævar kom inn á það í viðtalinu í nóvember að hann hefði íhugað að leggja skóna á hilluna. Missti hann áhugann á fótbolta?

„Já, ég myndi segja að það hafi gerst síðasta sumar. Þetta var hrikalega erfitt og mig langaði að kúpla mig út úr þessu í smá stund. Eins leiðinlegt og það er því ég elska fótbolta meira en allt, hefur verið númer eitt síðan ég var fimm ára.“

Minnkaði áhuginn á því að horfa á fótbolta?

„Já, ég myndi segja að það hafi gerst. En mér finnst það vera koma aftur. Mér finnst alltaf gaman að horfa á fótbolta og geri mikið af því. Það var á tímabili að ég fékk smá ógeð. Ég datt samt aldrei í það að slökkva á sjónvarpinu ef það var leikur í gangi.“

Mastersnám við Edinborgarháskóla
Ævar sótti um framhaldsnám í vetur, hvað er hann að fara læra?

„Ég ákvað að sækja um masterssnám í Bretlandi. Tólf mánaða prógram í statistics with data science eða tölfræði, gagnagreining og gervigreind. Ég stefni á það og er kominn inn í það nám, komst inn í tvo skóla og valdi á milli. Ég valdi Edinborgar háskóla og held þangað í haust.“

Eyjó hefur hjálpað mikið
Ævar nefndi Eyjólf Héðinsson sérstaklega í viðtalinu í haust. Hvernig hefur Eyjó hjálpað Ævari?

„Hann er sjálfur með sína sögu, hann var lengi frá á sínum ferli og ég spjallaði mikið við hann. Hann hefur hjálpað mér helling í þessu ferli öllu og ég spjallaði líka oft við hann í vetur. Ég myndi klárlega segja að hann hafi hjálpað mér helling.“

„Eins og er þá er ég að setja annað í fyrsta sætið"
Hvernig var samtalið við Rúnar í haust?

„Hann sýndi minni hlið fullan skilning, hann er þannig gerður að hann er mjög góður í samskiptum við mann og við spjölluðum um þetta. Hann skildi mína hlið og sagði að ég finndi þetta best sjálfur. Auðvitað vill enginn þjálfari hafa leikmann sem er ekki alveg viss með þetta allt. Ég var að renna út á samning og var ekkert að rifta eða neitt. Hann vildi hafa mig áfram."

„Það hafa margir sagt við mig að reyna halda áfram en á endanum þá er það maður sjálfur sem tekur ákvörðunina og þú verður að hlusta á hvað þér sjálfum finnst. Eins og er þá er ég að setja annað í fyrsta sætið og er að einbeita mér að því. Það gæti breyst þegar maður finnur að það sé komið sumar og sú stemning tekur yfir.“


Er farinn að finna smá mun
Stjarnan yrði alltaf fyrsta símtal ef fótboltinn kallaði á þig aftur?

„Já, ég myndi alltaf byrja á að tala við þá, til að láta vita af mér og spjalla. Ég auðvitað myndi ekkert segja að ég væri að koma til að spila með Stjörnunni, það væri þeirra ákvörðun.“

Hvernig er staðan á meiðslunum í dag?

„Þetta er þrálátt og ég stífna alltaf upp í náranum aftur og aftur. Ég hef fengið mismunandi svör frá þeim aðilum sem ég hef farið til. Það var kviðslit, það var eitthvað í mjöðminni, það var í náranum, skekkja og svo framvegis. Ég get farið að hlaupa og allt það en um leið og ég hleyp mikið þá byrjar nárinn að kvarta. Það eru erfiðustu meiðslin til að greina. Ég er á ákveðnu prógrami núna, ákveðnu mjaðmaprógrami og ég er farinn að finna smá mun. Vonandi er það lausn,“ sagði Ævar.

Viðtalið frá því í nóvember:
„Auðvelt að klífa fjallið þegar þú sérð toppinn en ef hann birtist aldrei ertu fljótur að þreytast"
Athugasemdir
banner
banner