Erik Hamren, nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands, hefur hrifist af íslenskum stuðningsmönnum undanfarin ár. Hamren henti í eitt gott víkingaklapp í fyrsta viðtali sínu við Fótbolta.net í dag.
„Stuðningsmennirnir hafa sýnt sig fyrir öllum heiminum," sagði Hamren við Fótbolta.net í dag.
„Ég var á vellinum í leiknum gegn Argentínu í sumar og ég fann andrúmsloftið og ástina á liðinu."
Hamren þekkir víkingaklappið vel. Svíinn starfaði síðast sem ráðgjafi hjá Mamelodi Sundowns í Suður-Afríku og þar á bæ höfðu menn tekið klappið frá Íslandi.
„Stuðningsmennirnir þar byrjuðu með íslenska klappið. Eftir alla leiki gera stuðningsmennirnir það saman," sagði Hamren léttur og henti í eitt víkingaklapp.
Sjón er sögu ríkari en í meðfylgjandi myndbandi má horfa á klappið.
Athugasemdir