Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 08. nóvember 2019 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thuram segir þjálfara Verona vera hættulegan
Ivan Juric.
Ivan Juric.
Mynd: Getty Images
Lillian Thuram.
Lillian Thuram.
Mynd: Getty Images
Balotelli varð fyrir kynþáttafordómum.
Balotelli varð fyrir kynþáttafordómum.
Mynd: Getty Images
Lillian Thuram, fyrrum landsliðsmaður Frakklands, segir að þjálfari Hellas Verona sé hættulegur einstaklingur sem eigi að fara í bann.

Mario Balotelli, sóknarmaður Brescia, varð fyrir kynþáttafordómum í leik gegn Verona um síðustu helgi.

Ivan Juric, stjóri Verona, gerði lítið úr því eftir leik og sagði: „Í dag gerðist ekkert, engir kynþáttafordómar."

„Það var einfaldlega verið að kalla á og stríða frábærum leikmanni. Ég er frá Króatíu og ég er vanur að heyra alls konar hluti um mig hér. Þetta er algengt hér."

„Á Ítalíu er oft vandamál vegna rasisma en í dag var ekkert slíkt. Ég veit ekki af hverju hann hegðaði sér svona," sagði Juric.

Thuram, sem lék með félögum á borð við Barcelona, Juventus og Parma tjáði sig um málið í samtali við Radio 24.

„Við verðum að segja fólki að það sé saga á bak við rasisma og það sé ekki satt að hann sé tilkominn vegna fáfræði," sagði Thuram.

„Sagan sannar að rasistar trúi virkilega á þessi gildi, rétt eins og með kynhyggju. Ef einhver telur að einhver kynþáttur eða eitthvað kyn sé verra en annað, þá er sá aðili ekki heimskur. Hann trúir því raunverulega."

„Það er líka mjög hættulegt að taka apahljóðum sem gríni. Það er ekki eðlilegur hlutur að gera. Það þurfa allir að benda á að það sé óásættanlegt."

„Þess vegna segi ég að þjálfari Verona sé mjög hættulegur og það eigi að banna hann fyrir það sem hann sagði."

„Hann sagði að hann hefði ekki heyrt neitt sem væri rangt, það er hættan. Þegar ráðist er á einhvern, þá þurfa aðrir að hjálpa, ekki að búast við því að manneskjan sem ráðist er á verji sjálfan sig."

„Þegar allir leikmennirnir ganga af velli saman, þá munu hlutirnir breytast hratt. Kynþáttafordómar eru ofbeldi," sagði Thuram.

Juric svaraði Turam í viðtali við ANSA þar sem hann sagði: „Ég er ekki hættulegur og hef ekki sagt neitt hættulegt."

„Ég hef aldrei réttlætt né ætlað mér að gera lítið úr neinni birtingarmynd kynþáttafordóma eða mismununar þar sem ég hef sjálfur áður verið fórnarlamb."

„Ég er búinn að tala persónuleg við Balotelli og skýra mína hlið. Á sunnudaginn sagði ég að ég hefði ekki heyrt neitt nema baul (e. whistles), einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki heyrt neitt þar sem ég var."

„Þetta þýðir ekki að ég sé rasisti, eða að ég réttlæti það að vera rasisti. Þetta þýðir að ég sé hreinskilinn."

Hellas Verona setti leiðtoga Ultras, stuðningsmannasveitar félagsins, í ellefu ára bann fyrir kynþáttafordóma í garð Balotelli, og þarf félagið að hafa Poltrone Est stúkuna, þar sem boltabullurnar safnast saman, lokaða í einn leik.

Á myndbandinu hér að neðan má augljólega heyra apahljóð þegar Balotelli fær boltann.

Athugasemdir
banner