Arsenal og Tottenham hafa áhuga á Kean - Man Utd sýndi Fermín López áhuga - Jota orðaður við Arsenal
   sun 09. febrúar 2025 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Postecoglou: Hvernig gekk Liverpool í dag?
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Tottenham
Ange Postecoglou þjálfari Tottenham gæti verið rekinn úr starfi sínu eftir enn eitt tap liðsins. Tottenham tapaði 2-1 gegn Aston Villa í enska bikarnum í dag og er þar með dottið úr báðum ensku bikarkeppnunum með þriggja daga millibili.

Tottenham datt úr leik í undanúrslitum enska deildabikarsins á fimmtudaginn en Postecoglou kennir meiðslavandræðum og miklu leikjaálagi um slakt gengi.

„Við vorum með 11 leikmenn fjarverandi vegna meiðsla. Taktu 11 aðalliðsmenn úr hvaða leikmannahópi sem er og sjáðu svo hvernig þeim gengur. Þetta hafa verið ótrúlega erfiðir mánuðir fyrir okkur," sagði Postecoglou.

„Hvernig gekk Liverpool í dag? Þeir skiptu út ellefu leikmönnum og töpuðu. Prófaðu að gera þetta í tvo og hálfan mánuð á meðan þú ert að spila tvo leiki á viku allan tímann. Fótboltaliðið sem kemst vel í gegnum þann kafla er ekki til. Mér er sama þó fólk dæmi mig fyrir slakt gengi Tottenham, en það skiptir mig máli að fólk dæmi ekki leikmennina fyrir það. Þeir hafa gefið allt sem þeir eiga í þetta. Í dag vorum við með tvo 18 ára stráka, einn 17 ára, einn 19 ára og 21 árs markmann í byrjunarliðinu á einum af erfiðustu útivöllum landsins.

„Við spiluðum mikilvægan leik við Liverpool fyrir þremur dögum á meðan Villa hafði viku í hvíld fyrir leikinn í dag. Við gátum ekki gert neina breytingu á leikmannahópinum sem mætti Liverpool. Það er ósanngjarnt að dæma leikmennina útfrá frammistöðu sinni í vetur útaf því að þeir eru þreyttir. Þeir eru mennskir eins og við öll, þeir eru ekki vélar. Ég ber ótrúlega mikla virðingu fyrir hvernig þeir eru að takast á við þessar erfiðu aðstæður og þeir eiga hrós skilið. Fólk er alltof snöggt að kenna þeim um og segja að þeir séu ekki nógu góðir. Það er rangt.

„Við höfum verið með 9 til 11 leikmenn aðalliðsins fjarverandi í hverjum einasta leik í nokkra mánuði. Það er ósanngjarnt að dæma okkur útfrá úrslitum vetrarins. Við höfum verið í þessum meiðslavandræðum síðan um miðjan nóvember."


Postecoglou hélt áfram að útskýra sína hlið og gefur lítið fyrir fólk sem segir að hann sé að nota meiðslavandræði liðsins sem auðvelda afsökun.

„Það er ekki hlutlaust mat að líta á þetta sem einhverja afsökun. Þetta er raunveruleikinn. Ef þið (fjölmiðlar) viljið bola mér úr starfi þá megið þið endilega reyna það milljón sinnum, en þegar kemur að leikmönnum liðsins þá er öll gagnrýni gegn þeim ósanngjörn. Þeir hafa verið stórkostlegir miðað við aðstæður. Þeir eru mennskir. Bjuggust þið kannski við að þeir myndu mæta fljúgandi til leiks í dag eftir að hafa spilað gegn Liverpool fyrir þremur dögum? Þetta virkar ekki þannig. Strákarnir eru ekki nálægt sínu besta þessa dagana en þeir munu finna taktinn aftur þegar liðsfélagarnir koma til baka úr meiðslum.

„Við erum með gríðarlega sterkan leikmannahóp. Þegar strákarnir verða allir komnir úr meiðslum geta þeir gert magnaða hluti.

„Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta með öðrum hætti en fólk verður að skilja að strákarnir eru að gera allt sem þeir geta. Þeir eru búnir að spila hvern einasta fimmtudag og hvern einasta sunnudag í tvo og hálfan mánuð."

Athugasemdir
banner
banner
banner