Mateta kostar 40 milljónir punda - Liverpool og Man Utd vilaj Robinson - Douglas Luiz aftur í ensku úrvalsdeildina?
banner
   sun 09. mars 2025 16:18
Brynjar Ingi Erluson
Lengjubikarinn: KR í undanúrslit - Ljótt rautt spjald og glæsimark í spennuleik
Róbert Elís Hlynsson skoraði glæsimark undir lok leiks
Róbert Elís Hlynsson skoraði glæsimark undir lok leiks
Mynd: Mummi Lú
Samúel Kári sá rautt fyrir ljóta tæklingu
Samúel Kári sá rautt fyrir ljóta tæklingu
Mynd: Mummi Lú
Mynd: Mummi Lú
Mynd: Mummi Lú
Mynd: Mummi Lú
Stjarnan 1 - 3 KR
0-1 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('28 )
1-1 Emil Atlason ('56, víti )
1-2 Gyrðir Hrafn Guðbrandsson ('60 )
1-3 Róbert Elís Hlynsson ('90 )
Rautt spjald: Samúel Kári Friðjónsson ('41, Stjarnan)

KR tryggði sig endanlega í undanúrslit A-deildar í Lengjubikar karla í dag er liðið vann Stjörnuna, 3-1, á Samsung-vellinum í dag.

Það var nokkuð ljóst fyrir leikinn að KR væri á leið í undanúrslit en eina sem liðið þurfti að gera var að tapa ekki með meira en átta mörkum.

Gestirnir vildu hins vegar gera hlutina með stæl. Eiður Gauti Sæbjörnsson kom KR á bragðið á 28. mínútu með sprellimarki, en Guðmundur Kristjánsson ætlaði að reyna sendingu úr teignum sem Eiður komst inn í og fór boltinn í netið.

Þrettán mínútum síðar misstu Stjörnumenn Samúel Kára Friðjónsson af velli fyrir ógeðslega tæklingu á Gabríel Hrannari Eyjólfssyni.

Í aðdragandanum vildu Stjörnumenn fá aukaspyrnu er brotið var á Örvari Eggertssyni en Elías Ingi Árnason, dómari leiksins, dæmdi ekki. Einhver pirringur kom í Stjörnumenn í kjölfarið og ákvað Samúel að kasta sér í fasta og ljóta tæklingu og uppskar rautt spjald fyrir.

Mikill hiti var í mönnum eftir brotið og eitthvað um átök áður en leikurinn fékk að halda áfram.

Staðan í hálfleik 1-0 fyrir KR, en Stjörnumenn náðu að svara á 56. mínútu. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson braut á Benedikt Warén og skoraði Emil Atlason úr vítinu.

Gyrðir var ekki lengi að bæta upp fyrir mistök sín því fjórum mínútum síðar jafnaði hann metin eftir skemmtilega útfærslu á hornspyrnu. Hornið var tekið stutt á Stefán Árna Geirsson sem fann kollinn á Gyrði og þaðan fór boltinn í netið.

Stjörnumenn fengu tvö góð færi til að jafna leikinn. Dagur Orri Garðarsson átti fínasta sprett á 76. mínútu og sendi síðan boltann á Guðmund Baldvin Nökkvason sem kom sér í gott færi en Halldór Snær Georgsson varði.

Jón Hrafn Barkarson kom sér þá einni í álitlegt færi en náði ekki nægilega góðu skoti að marki. Ástbjörn Þórðarson komst nálægt því að innsigla sigur KR-inga stuttu eftir færi Stjörnunnar, en honum brást bogalistin.

Þegar lítið var eftir af uppbótartímanum tókst KR-ingum að tryggja sigurinn og var það mark af dýrustu gerð. Róbert Elís Hlynsson lyfti boltanum rétt fyrir framan miðjuhringinn og yfir Árna Snæ Ólafsson í markinu. Glæsilegt mark hjá Róberti sem kom frá ÍR eftir síðasta tímabil.

KR-ingar kláruðu þetta á góðum nótum og eru nú komnir í undanúrslit gegn Fylki. Samkvæmt KSÍ fer leikurinn fram 14. mars næstkomandi.

Stjarnan Árni Snær Ólafsson (m), Guðmundur Kristjánsson (63'), Þorri Mar Þórisson, Sindri Þór Ingimarsson (61'), Örvar Eggertsson (72'), Jóhann Árni Gunnarsson (46'), Samúel Kári Friðjónsson, Guðmundur Baldvin Nökkvason, Emil Atlason (72'), Benedikt V. Warén (72'), Baldur Logi Guðlaugsson
Varamenn Adolf Daði Birgisson (72'), Jón Hrafn Barkarson (72'), Sigurður Gunnar Jónsson (61'), Dagur Orri Garðarsson (72'), Alex Þór Hauksson (46'), Guðmundur Rafn Ingason, Bjarki Hauksson (63')

KR Halldór Snær Georgsson (m), Júlíus Mar Júlíusson (90'), Jóhannes Kristinn Bjarnason, Finnur Tómas Pálmason (46'), Stefán Árni Geirsson (78'), Eiður Gauti Sæbjörnsson, Vicente Rafael Valor Martínez (72'), Gabríel Hrannar Eyjólfsson, Atli Sigurjónsson (46'), Kristófer Orri Pétursson, Róbert Elís Hlynsson
Varamenn Birgir Steinn Styrmisson (46), Gyrðir Hrafn Guðbrandsson (46), Óliver Dagur Thorlacius (72), Ástbjörn Þórðarson (78), Jón Arnar Sigurðsson (90), Sigurpáll Sören Ingólfsson (m)

Lengjubikar karla - A-deild, riðill 4
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    KR 5 5 0 0 21 - 6 +15 15
2.    Keflavík 5 4 0 1 13 - 7 +6 12
3.    Stjarnan 5 2 1 2 12 - 10 +2 7
4.    ÍBV 5 1 1 3 9 - 13 -4 4
5.    Leiknir R. 5 0 2 3 13 - 20 -7 2
6.    Selfoss 5 0 2 3 7 - 19 -12 2
Athugasemdir
banner
banner
banner