mið 09. nóvember 2022 17:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þeir hafi ekki sett allan peninginn á það að ég yrði einhver leikmaður"
Í leik gegn Breiðabliki.
Í leik gegn Breiðabliki.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Þorkell Máni Pétursson.
Þorkell Máni Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorlákur Árnason.
Þorlákur Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistarar 2016.
Íslandsmeistarar 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Val.
Í leik með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er einn besti leikmaður í sögu kvennaliðs Stjörnunnar. Hún tók þátt í uppbyggingu hjá félaginu og hjálpaði þeim að vinna fjölda titla.

Adda lék upp yngri flokkana með Breiðabliki en fékk ekki tækifærið í meistaraflokki þar og fór yfir Stjörnuna.

„Blikarnir eru með besta liðið á landinu. Ég fékk ekki að æfa með meistaraflokki. Áhuginn var ekki bilaður. Ég tók mér frí fram að áramótum til að ákveða hvað ég ætti að gera í fótboltanum. Svo talar Jóhannes Karl (Sigursteinsson) við mig í Stjörnunni og fær mig á æfingu," sagði Adda við Fótbolta.net.

„Blikarnir voru ekki að spá í hvað ég var að gera. Ég held að þeir hafi ekki sett allan peninginn á það að ég yrði einhver leikmaður. Það var fullt af góðum leikmönnum í Breiðabliki og þau þurfa einhvers staðar að veðja. Þau veðjuðu ekki á mig og þannig fór það."

Hann á stóran þátt í mínum ferli
Þegar Adda kom í Stjörnuna var liðið um miðja deild eða í neðri hlutanum. Svo fóru hjólin að snúast. Liðið varð að besta liði landsins stuttu eftir 2010.

„Þetta hefur aðdraganda. Þegar ég kom í Stjörnuna var þetta fjórða, fimmta og sjötta sæti. Þetta var ofboðslega skemmtilegur hópur af stelpum en engin okkar var að hugsa um að verða Íslandsmeistarar. Svo kemur Þorkell Máni (Pétursson) inn í þetta og gerir breytingar sem ekki allir voru sáttir með. Hann hreinsar út úr leikmannahópnum og ég man að ég var ofboðslega ósátt við hann," sagði Adda.

„Hann tók margar af mínum bestu vinkonum og sagði þeim að fara annað. Hann reyndi það sama við mig en ég eiginlega neitaði bara að fara. Við byrjuðum að byggja upp á þessum tíma. Svo kemur Láki (Þorlákur Árnason) inn í þetta og við gerðum fimm ára plan."

Máni er í dag þekktur sem útvarps- og sjónvarpsmaður en hann hefur ekki þjálfað lengi. Adda segir að Máni hafi hjálpað til við að móta sig sem karakter.

„Hann gerði svo mikið fyrir okkur sem lið og sem einstaklinga. Hann á stóran þátt í mínum ferli. Hann mótaði mig sem karakter, lét mig finna fyrir því. Æfingarnar voru í minningunni venjulegar fótboltaæfingar en hann bjó til ofboðslega sterkan hóp og hjálpaði allavega mér mikið sem einstaklingi."

Taktík sem virkaði vel fyrir okkur
Það tók tíma að byggja þetta í Garðabænum en það tókst. Öddu segist aldrei hafa hugsað um að fara frá Stjörnunni á þessum tíma þar sem henni leið vel og sá að það var eitthvað gott í gangi. Stjarnan varð Íslandsmeistari 2011. Það var byrjunin á gríðarlega góðum árangri.

„Láki kom inn og byrjaði strax að tala um að við yrðum Íslandsmeistarar í febrúar. Við vorum að hugsa að hann væri eitthvað klikkaður, við værum með Val og Breiðablik fyrir framan okkur. Hann kom alltaf með nöfn í Val og spurði: 'Finnst þér þú vera lélegri en hún?' Það var minnisstætt þegar hann tók töflufund fyrir leik í apríl eða eitthvað. Hann skrifar allt Valsliðið upp og segir að við séum betri en þær allar. Þetta er taktík sem virkaði vel fyrir okkur. Hann býr til mikla liðsheild. Hann er frábær þjálfari, einn af þeim betri sem ég hef haft."

„Ég er með þrjá mjög minnistæða titla af mismunandi ástæðum. Titillinn 2011 stendur ofboðslega hátt, líka fyrir félagið," sagði Adda og nefndi hún líka að Íslandsmeistaratitillinn með Stjörnunni 2016 og með Val 2019 væru mjög minnisstæðir.

Með stórt Stjörnuhjarta
Adda segist ekki hafa spilað fyrir mikinn pening í Stjörnunni. Ástríðan hafi verið aðalmálið.

„Við náðum alltaf að halda dampi. Við spiluðum ekki fyrir háar upphæðir á mánuði. Ég held að ég hafi verið með 20 þúsund krónur á mánuði í átta ár. Þess vegna var tími minn með Stjörnunni svo eftirminnilegur; þetta var svo mikið af liðsheildartitlum. Við gerðum þetta svo margar fyrir félagið. Maður fann hvað leikmenn voru miklir Stjörnumenn. Kjarninn í liðinu spilaði lengi saman."

„Þetta var ástríða fyrir félagið, fyrir leikmennina sem ég var að spila með. Ég var ekki sú eina sem var með 20 þúsund kall, það voru flestar held ég. Þú getur ímyndað þér ef að fyrirliðinn var með 20 þúsund á mánuði... svo hækkaði ég upp í 40, fékk 100 prósent álag. Þú getur séð að þetta var ástríða fyrir félagið, að spila með þessum leikmönnum, fyrir þessa þjálfara og fyrir Stjörnuna."

Adda telur að launamál í íslenskum fótbolta séu á betri stað í dag. „En við vorum ekkert að kvarta yfir þessu. Ég hef aldrei litið á fótbolta sem einhvern tekjustofn," sagði hún; ástríða og gaman.

Adda yfirgaf Stjörnuna 2018. Hún er samt sem áður með mikið Stjörnuhjarta eftir sinn tíma í Garðabænum.

„Tilfinningalega var þetta erfitt. Ég tók ekkert endilega ákvörðunina um að fara. Stjórnin í raun gerði það. Þau buðu mér samning sem var í raun ekkert samningur. Það voru breytingar hjá þeim og þeir tóku þessa ákvörðun, menn í stjórn. Á þessu tímabili fara að ég held níu leikmenn úr félaginu. Viðskilnaðurinn var erfiður og mér finnst erfitt að horfa til baka. Ég get sagt það núna þegar ég sé Kjartan Henry ganga í gegnum svona tilfinningalegan hluta með KR að ég er fegin að hafa ekki farið í viðtöl beint eftir viðskilnað minn við Stjörnuna. Það eru svo margar tilfinningar þegar þú tengist félaginu svona mikið. Félagið hefur líka gert svo mikið fyrir mig," segir Adda.

„Stjarnan er stærra en 3-4 stjórnarformenn. Ég ákvað að halda áfram að þykja vænt um Stjörnuna og ekki merkja félagið út frá mönnum sem ráða... ég er ofboðslega ánægð að hafa fengið að fara í Val á þeim tímapunkti."

Adda sagði frá því í þættinum að hún hugsaði um að fara í Þór/KA en valdi að lokum Val. Það er ákvörðun sem hún sér alls ekki eftir en næst á dagskrá hjá henni er þjálfarahlutverk í Val. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Adda fer yfir glæstan feril - Einn sigursælasti leikmaður sögunnar
Athugasemdir
banner
banner
banner