Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
   lau 10. febrúar 2024 22:44
Ívan Guðjón Baldursson
Afturelding búin að vinna kappið um Oliver Bjerrum Jensen
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danski fréttamiðillinn Tipsbladet segist hafa öruggar heimildir fyrir því að Afturelding sé búið að vinna kapphlaupið um miðjumanninn unga Oliver Bjerrum Jensen.

Oliver gerði flotta hluti á láni hjá Aftureldingu á síðustu leiktíð en sneri svo aftur til Randers eftir tímabilið. Hann vakti athygli á sér, sérstaklega frá Vestra, sem hefur verið að berjast við Aftureldingu um leikmanninn.

Vestri hefur það framyfir Aftureldingu að spila í efstu deild, en liðin mættust í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar í fyrra og hafði Vestri betur.

Oliver rifti samningi sínum við Randers í janúar og er því frjáls ferða sinna í dag. Hann er með tilboð á borðinu frá Vestra og Aftureldingu en virðist vera búinn að velja Mosfellsbæinn.

Hann var mikilvægur hlekkur á miðju Aftureldingar í fyrra og skoraði 4 mörk í 25 deildarleikjum.

Oliver er aðeins 21 árs gamall og ætti hann að vera kynntur sem nýr leikmaður Aftureldingar á næstu vikum. Það á einungis eftir að ganga frá síðustu smáatriðunum í samningsmálum leikmannsins.

„Hann var nákvæmlega leikmaðurinn sem við vorum að leitast eftir í fyrra, hann er virkilega góður á boltanum og er ekta leikstjórnandi. Þetta er mjög öflugur leikmaður sem við bjuggumst ekki við að geta fengið aftur til liðs við okkur, en nú hefur sá möguleiki opnast og við ætlum að gera allt í okkar valdi til að nýta okkur það tækifæri," sagði Gísli Elvar Halldórsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar, við Tipsbladet.

Oliver hefur komið við sögu í einum leik í efstu deild danska boltans með Randers og ákvað að yfirgefa félagið þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki búist við miklum spiltíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner