
„Þetta er súrsætt," sagði Baldvin Már Borgarsson aðstoðarþjálfari Ægis eftir að liðið féll úr leik í 8 liða úrslitum Mjólkurbikarsins eftir 3-0 tap gegn KA á Akureyri.
Lestu um leikinn: KA 3 - 0 Ægir
„Við mættum hingað og sýndum hetjulega barátttu, að mörgu leiti frábæran leik í því sem við vorum að reyna. Við gleymum okkur aðeins þarna á sjötugustu og eitthvað mínútu og þá þurfum við að breyta og reynum að jafna leikinn. Við förum í okkar hefðbundna skipulag og KA menn gera vel í að klára leikinn í uppbótartíma," sagði Baldvin.
Það voru svo sannarlega tækifæri fyrir Ægismenn að komast yfir í þessum leik.
„Við fengum færi, í stöðunni 0-0 kemur Rolin með geggjaðan bolta og Bjarki hittir ekki boltann, hann á bara að skalla hann inn. Ef það hefði verið 1-0, hvað hefði þá gerst? Veit það ekki, mörk breyta leikjum."
Baldvin var stoltur af liðinu í leikslok.
„Í stöðunni 0-0 leið okkur ágætlega. Við vorum undirbúnir fyrir það að fara í framlengingu og lifa á lyginni í þessum leik. Þetta eru ekki óvænt úrslit en ég er stoltur af strákunum," sagði Baldvin.