mið 10. ágúst 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Celta Vigo að styrkja sig - Okay til WBA (Staðfest)
Carles Perez er kominn til Celta.
Carles Perez er kominn til Celta.
Mynd: Getty Images
Marchesín ætlar að fara með Argentínu á HM.
Marchesín ætlar að fara með Argentínu á HM.
Mynd: EPA
Oscar Rodriguez hefur ekki staðist væntingarnar sem Sevilla gerir til hans.
Oscar Rodriguez hefur ekki staðist væntingarnar sem Sevilla gerir til hans.
Mynd: EPA

Það hafa orðið þónokkrar breytingar á leikmannahópi spænska félagsins Celta Vigo sem endaði um miðja deild á síðustu leiktíð.


Félagið hefur verið duglegt í sumar eftir að hafa selt Brais Mendez til Real Sociedad í byrjun sumars fyrir um 15 milljónir evra. Celta seldi í kjölfarið Nestor Araujo og Emre Mor til Mexíkó og Tyrklands og missti Okay Yokuslu á frjálsri sölu til West Bromwich Albion. Að lokum var markvörðurinn Ruben Blanco lánaður til Marseille.

Í dag var Celta að staðfesta komu Carles Perez á eins árs lánssamningi frá Roma með kaupmöguleika. Perez er 24 ára gamall kantmaður sem ólst upp hjá Barcelona áður en Roma keypti hann fyrir rúmlega 10 milljónir evra. Hann kom aðeins að 15 mörkum í 75 leikjum hjá Roma sem vill losna við þennan leikmann. Perez virtist gífurlega mikið efni á sínum tíma og skoraði til að mynda 15 mörk í 19 leikjum fyrir yngri landslið Spánar en tók aldrei stökkið upp í A-landsliðið.

Önnur fyrrum vonarstjarna er komin til Vigo, portúgalski sóknarmaðurinn Goncalo Paciencia var keyptur frá Eintracht Frankfurt. Þessi 28 ára gamli kappi lék yfir 60 leiki fyrir yngri landslið Portúgal en hefur aðeins spilað tvisvar fyrir A-landsliðið, og skorað eitt mark. Paciencia kostaði um 3 milljónir evra enda hefur hann ekki verið að finna netið upp á síðkastið og skoraði aðeins 5 í 25 leikjum á síðustu leiktíð.

Argentínski markvörðurinn Agustín Marchesín, 34 ára, er einnig kominn til félagsins. Hann hefur verið aðalmarkvörður Porto síðustu tvö tímabil en sá fram á að missa byrjunarliðssætið á næstu leiktíð. Marchesín er að berjast um sæti í landsliðshóp Argentínu fyrir HM og ákvað að skipta um félag til að tryggja sér spiltíma, hann mun fylla í skarðið sem Ruben Blanco skilur eftir.

Eins og við höfum áður greint frá hér á Fótbolta.net krækti Celta í sænsku vonarstjörnuna Williot Swedberg frá Hammarby fyrr í sumar og Oscar Mingueza frá Barcelona. Bandaríski miðjumaðurinn Luca de la Torre er einnig kominn ásamt Unai Nunez, Julen Lobete og Oscar Rodriguez.

De la Torre er 24 ára landsliðsmaður Bandaríkjanna sem ólst upp hjá Fulham en hefur verið hjá Heracles í Hollandi síðustu tvö ár á meðan Nunez kemur á lánssamningi frá Athletic Bilbao þar sem hann lék 31 leik fyrir félagið á síðustu leiktíð. Hann er 25 ára miðvörður með einn landsleik að baki fyrir Spán.

Lobete er 21 árs kantmaður með einn leik að baki fyrir U21 landslið Spánverja á meðan Oscar er 24 ára og ólst upp hjá Real Madrid. Hann kemur á lánssamningi frá Sevilla eftir að hafa verið lánaður til Getafe á seinni hluta síðustu leiktíðar. Oscar er sóknartengiliður með tvo leiki að baki fyrir Spán og 44 leiki fyrir Sevilla.

Það verður áhugavert að fylgjast með skemmtilegu liði Celta á næstu leiktíð.


Athugasemdir
banner
banner
banner