Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, hefur oft verið að glíma við meiðsli fyrir landsleiki á þessu ári. Hann er í betri málum en oft áður fyrir leikinn gegn Króötum á laugardag.
„Ég er allt í lagi. Ég finn til hér og þar en það er eins og gengur og gerist. Ég er bara kátur og tilbúinn í leikinn," sagði Aron við Fótbolta.net fyrir æfingu landsliðsins í Parma í dag. Hann er spenntur fyrir toppslagnum í riðlinum í Zagreb á laugardag.
„Ég er allt í lagi. Ég finn til hér og þar en það er eins og gengur og gerist. Ég er bara kátur og tilbúinn í leikinn," sagði Aron við Fótbolta.net fyrir æfingu landsliðsins í Parma í dag. Hann er spenntur fyrir toppslagnum í riðlinum í Zagreb á laugardag.
„Við erum búnir að fara vel yfir þá og það er mikilvægt því að þetta verður erfiður leikur. Þetta er sterk þjóð sem við erum að mæta og þetta gæti verið mikilvægur leikur upp á framhaldið."
Ísland tapaði 2-0 gegn Króötum í Zagreb fyrir þremur árum síðan í umspili um sæti á HM.
„Heimir (Hallgrímsson) kom með góðan punkt um að það hafi verið vendipunktur fyrir okkur sem landslið. Strax eftir það fórum við að einbeita okkur að því að komast á EM og það keyrði okkur áfram. Það var svekkjandi leikur því að við komumst ekki á HM en það var líka smá spark í rassinn á okkur," sagði Aron en má tala um hefndarför til Zagreb?
„Sumir líta kannski á það þannig, það fer eftir því hvernig menn gíra sig í leikinn, hvort menn vilji nota það þannig eða ekki. Þeir voru bara betri en við á þeim degi og skóluðu okkur til. Þeir hafa ekki breytt miklu. Þetta er skipulagt lið og við þurfum að eiga toppleik til að ná einhverju úr leiknum á laugardaginn."
Aron fær verðuga samkeppni á miðjunni á laugardaginn en Luka Modric og Ivan Rakitic, tveir af öflugustu miðjumönnum heims, eru í liði Króatíu.
„Það er ástæða fyrir því að þeir eru í Real Madrid og Barcelona. Þeir eru góðir leikmenn sem við þurfum að hafa gætur á. Það eru ekki bara þeir tveir, þeir eru með leikmenn í öllum stöðum sem eru að spila með bestu liðum Evrópu. Það verður erfitt að kljást við þá en gaman."
Leikurinn á laugardag fer fram fyrir luktum dyrum líkt og þegar Ísland mæti Úkraínu í september. „Þetta var skrýtið í Úkraínu en við erum allavega búnir að venjast því. Þegar leikurinn byrjar eru menn ekkert að pæla í því. Menn geta þá allavega talað saman," sagði Aron.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir























