Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 10. nóvember 2022 12:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Adda um Betu: Væri til í að sjá hana máta sig í karlaboltanum
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet ræðir við landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur.
Elísabet ræðir við landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adda og Elísa spiluðu saman í Kristianstad.
Adda og Elísa spiluðu saman í Kristianstad.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet hefur stýrt Kristianstad frá 2009.
Elísabet hefur stýrt Kristianstad frá 2009.
Mynd: Guðmundur Svansson
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, einn sigursælasti leikmaður í sögu íslenska boltans, var gestur í hlaðvarpi hér á síðunni fyrr í þessari viku.

Á meðal þess sem hún ræddi var lánsdvöl hjá Kristianstad í Svíþjóð árið 2013. Það var eini tími hennar hjá félagsliði erlendis. Henni bauðst oftar að fara út en henni leið gríðarlega vel í Stjörnunni. Þjálfari Kristianstad var, og er, Elísabet Gunnarsdóttir.

„Ég þekki Betu vel. Hún var með mikið af meiðslum í liðinu á þessum tíma. Ég var með vangaveltur um það hvort ég ætti að fara út. Ég heyri í Betu og lendingin var sú að ég ætti að hjálpa henni í gegnum þessi meiðsli leikmanna hjá henni. Ég spilaði með Margréti Láru og Elísu (Viðarsdætrum) sem var gaman. Svo var gaman að sjá hvort ég gæti spilað í þessari deild. Þetta var skemmtilegur tími," sagði Adda.

„Ég er alltof 'loyal' manneskja. Mér fannst ég ekki geta yfirgefið Stjörnuna. Stjarnan hefði alveg getað lifað af án mín. Ég ákvað því að fara á láni og fara aftur til baka. Ég tók slaginn með Stjörnunni í staðinn. Þráin að spila erlendis var ekki rosalega mikil hjá mér, mér leið vel í Stjörnunni."

Adda segir að Elísabet sé frábær þjálfari. Hún hefur þjálfað Kristianstad frá 2013 og náð virkilega flottum árangri.

„Ég var með Betu í 2. flokki Breiðabliks. Það er frægt að hún sagði við mig að ef ég myndi ekki koma mér í stand að þá myndi ég aldrei spila í meistaraflokki. Ég tók hana á orðinu og hef alltaf verið með þetta bak við eyrað. Hún er frábær þjálfari og við sjáum það með Kristianstad. Það er í raun rannsóknarefni af hverju hún er ekki farin eitthvað annað. Það er kannski svolítið svipað og með mig. Henni finnst hún þurfa að vera í þessu félagi og er með þetta verkefni þarna úti."

„Ég væri til í að sjá hana máta sig í karlaboltanum," segir Adda, en hún er ekki í vafa um að Elísabet gæti náð flottum árangri í karlaboltanum, en það hefur ekki tíðkast mikið að konur séu að fá tækifæri til að stýra karlaliðum í fótbolta á meðan karlar eru mikið að stýra kvennaliðum. Það yrði skemmtilegt að sjá Betu ryðja brautina en þegar hún er spurð hvort Elísabet geti náð árangri í karlabolta segir hún:

„Alveg 100 prósent. Hún er frábær þjálfari og þá skiptir ekki máli ef hún er kona," sagði Adda.

Held að hún taki mögulega eitthvað erlent landslið
Elísabet hefur í gegnum tíðina verið orðuð við íslenska landsliðið. Hún ræddi við KSÍ undir lok ársins 2020 þegar þjálfaraleit var í gangi en þá ákvað sambandið að hún gæti ekki tekið við starfinu þar sem hún vildi klára tímabilið með Kristianstad. Adda sér ekki endilega fyrir sér að Elísabet taki við íslenska landsliðinu á næstu tíu árum, mögulega sé KSÍ bara búið að missa af tækifærinu.

„Ég veit það ekki. Ef hún hefði fengið almennilegt boð um það seinustu ár þá hefði hún jafnvel skoðað það. Það var umræða um það að hún hefði viljað taka það á undan Steina en það var ekki í boði þar sem hún vildi klára tímabilið með Kristianstad. Auðvitað vona ég að hún þjálfi íslenska landsliðið á einhverjum tímapunkti. Þetta er einn af okkar frambærilegustu þjálfurum, en ég held að hún taki mögulega eitthvað erlent landslið. Ég get séð það fyrir mér," sagði Adda en heyrst hefur að sænska fótboltasambandið sé farið að horfa til hennar.

„Ég yrði ekki hissa ef hún tekur við sænska landsliðinu, hún fer í eitthvað stærra gigg þegar hún nær að loka þessum kafla í Kristianstad."

„Ég er búin að halda í mörg ár að hún fari eitthvað annað en á sama tíma hefur maður fylgst með henni og unnið með henni þarna úti. Þá sér maður hversu mikið verkefni hún er og hversu mikils metin hún er hjá samfélaginu þarna. Hún er miklu meira en þjálfari, hún er allt í félaginu."

Hægt er að hlusta á allt spjallið í spilaranum hér fyrir neðan.

Sjá einnig:
Beta sagði Öddu að léttast ef hún vildi árangur
Svava Rós: Veit fyrir víst að hún gerði mig að betri leikmanni
Elísabet: Kona getur þjálfað karlalið ef hún er hæf í starfið
Adda fer yfir glæstan feril - Einn sigursælasti leikmaður sögunnar
Athugasemdir
banner
banner
banner