Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 19. janúar 2019 11:00
Hulda Mýrdal
Beta sagði Öddu að léttast ef hún vildi árangur
Ásgerður Stefanía eða Adda er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins
Ásgerður Stefanía eða Adda er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad þjálfaði Öddu í 2.flokki
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad þjálfaði Öddu í 2.flokki
Mynd: Fotball Gala
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Þar fer hún yfir ferilinn í ítarlegu spjalli.

Ferillinn fór rólega af stað. Þegar Adda var á 2.flokks aldri voru margar jafnöldrur hennar komnar upp í meistaraflokk. Hún spilaði einungis með varaliði Breiðabliks, Breiðablik 2, í 1.deildinni og aðeins einn leik í Landsbankadeildinni með Breiðablik þegar hún var 17 ára. Á þessum tíma benti ekki mikið til þess að Adda myndi ná þeim árangri sem hún hefur náð og hún var ekkert viss um að gefa allt í fótboltann.

„Eiginlega ekki, ég ætla ekkert að fegra það neitt. Á þessum tíma fannst mér bara gaman í fótbolta og var bara út af félagsskapnum. Ég tók þátt í þessum eina leik, auðvitað fannst mér leiðinlegt að stelpur sem voru yngri en ég voru komnar framar en ég var ekkert að pæla í því. Það hafði engin áhrif á mig."

Elísabet Gunnarsdóttir sem í dag þjálfar Kristianstad þjálfaði 2.flokk Blika á þessum tíma og hún átti eftir að hafa mikil áhrif á Öddu.

„Hún er svona sá þjálfari, þótt hún hafi ekki þjálfað mig lengi, sem hefur haft hvað mest áhrif á mig. Ég var enginn framúrskarandi leikmaður. Breiðablik hefði aldrei sett pening á það að ég myndi einhverntímann gera eitthvað. Ég held að þeim hafi verið sléttsama þegar ég fór úr 2.flokki og þegar ég fór í Stjörnuna. Þeir voru ekkert að horfa á eftir mér því ég bar ekki þess merki að ég væri að fara vera einhver afreksmaður. En hún (Elísabet Gunnarsdóttir) kemur á mjög góðum tíma fyrir mig og minn fótboltaferil”.

Sagði henni að létta sig um 6 kíló ef hún vildi árangur

„Það er mér mjög minnisstætt þegar ég var að spyrja hana hvað það væri sem ég gæti bætt því ég var einhverntímann ekki í byrjunarliði. Ég man bara að hún sagði: Þú þarft að létta þig um svona 6 kíló ef þú ætlar að gera eitthvað, 6 til 8 kíló. Að segja þetta við 16 ára stelpu, þetta yrði tekið fyrir á fundi í dag! Og ég man hvað ég hugsaði.. Ég á að létta mig? Ha? Ég er bara í virkilega góðu standi! En þetta var svo auðvitað hundrað prósent rétt hjá henni en ég tók þetta ekki strax til mín. Kannski eftir tvö ár eða eitthvað. En þetta er samt eitthvað svona sem ég man og ég veit að þetta er eitthvað sem þurfti að gerast á þeim tíma."

Kenndi mér að ætla lengra

„Ég var enginn íþróttamaður. Hún setur svona ákveðna íþróttahugsun inn í leikmenn sem hún tekur að sér. Annað hvort ertu þarna 100% eða þú getur bara gert eitthvað annað. Hún gerir allt til þess að bæta mann. Hún nær því besta út úr leikmönnum. Hún horfir ekkert bara á það hvort þú getir haldið 140 sinnum á lofti og sólað þrjá. Hún horfir á heildarmyndina og hvernig er hægt að mynda lið. Hún átti rosa stóran þátt í mínum fyrstu skrefum í að hugsa um mig sem íþróttamann og að ætla lengra. Hún á rosa stóran þátt í því. "

Smelltu hér til að hlusta á Öddu á Heimavellinum

Heimavöllurinn er einnig á Instagram þar sem knattspyrna kvenna er í forgrunni. Þar eru knattspyrnu kvenna gerð skil á lifandi og fjölbreyttan hátt. Þangað rata helstu fréttir, leikmaður vikunnar er valinn og knattspyrnukonur svara hraðaspurningum svo eitthvað sé nefnt.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner