Enzo Maresca hefur farið frábærlega af stað sem þjálfari Chelsea og situr stjörnum prýtt lið hans í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir glæsilegan endurkomusigur gegn Tottenham um helgina.
Jadon Sancho og Cole Palmer skoruðu báðir í 4-2 sigri Chelsea og hrósaði Maresca þeim í hástert ásamt Pedro Neto sem var einnig í byrjunarliðinu.
„Ég er mjög hrifinn af Jadon Sancho, hann hefur verið frábær bæði með og án boltans. Hann er vinnusamur og verst vel, alveg eins og Pedro Neto. Þetta snýst ekki bara um mörk og stoðsendingar, þeir gera mikilvæga hluti varnarlega og sóknarlega án boltans. Þeir leggja gífurlega mikla vinnu í hvern einasta leik, ég er mjög ánægður með þá," sagði Maresca og sneri sér svo að Palmer.
„Cole Palmer er toppleikmaður, hann á heima í hæsta gæðaflokki. Hann er frábær einstaklingur sem elskar fótbolta. Hann er hógvær og er ekki að gera neina skrýtna hluti utan vallar. Ungir leikmenn í dag halda að þeir séu bestir í heimi eftir einn góðan fótboltaleik og svo missa þeir dampinn. Cole er alltaf sá sami. Hann er ískaldur."
Sancho var kátur eftir sigurinn gegn Tottenham en hann hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United. Hann leikur á láni hjá Chelsea og er búinn að skora tvö mörk og gefa tvær stoðsendingar í síðustu fjórum leikjum liðsins.
„Mér hefur liðið vel hérna frá fyrsta degi. Chelsea tók mjög vel á móti mér og ég vissi að ég þurfti að sanna mig fyrir mikið af fólki. Ég hef verið að leggja mikla vinnu á mig og ég vil þakka félaginu innilega fyrir að hafa haft trú á mér. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri."
Athugasemdir