Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
   fös 11. júlí 2025 19:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Vonandi heldur hann þessi striki áfram því hann hefur gríðarlega hæfileika"
Hornfirski Messi.
Hornfirski Messi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hann skoraði sigurmarkið gegn KR í fyrra.
Kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hann skoraði sigurmarkið gegn KR í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Sigurðsson hefur leikið virkilega vel með Fram að undanförnu, spilað frábærlega inn á miðjunni í liði Fram sem hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.

Freyr er Hornfirðingur sem verður tvítugur seinna á árinu. Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson, þjálfara Fram, um Frey.

Af hverju er hann að koma svona sterkur upp á þessum tímapunkti?

„Freyr byrjaði með okkur á síðasta tímabili í upphafi móts, tók þátt í mörgum leikjum í fyrra. Með unga leikmenn er það þannig að þeir þurfa tíma til að vaxa og dafna og þeir þurfa tíma til að gera mistök og gera réttu hlutina; læra og þroskast. Þeir þurfa líka tíma til að kynnast því hvernig ég vil að þeir spili og hvernig ég vil að þeir hegði sér inn á vellinum og vinni sína vinnu bæði sóknarlega og varnarlega," segir Rúnar.

„Hann er búinn að vera þolinmóður, búinn að æfa ofboðslega vel, hugsar vel um sig; mætir og gerir hlutina eftir okkar höfði. Hann er ekkert að kvarta og kveina yfir því þó að hann þurfi að fara á bekkinn einstaka sinnum. Oft er þetta leiðin fyrir unga leikmenn, þarf smátt og smátt að gefa þeim fleiri mínútur. Því fyrr sem þetta gengur því betra. Hann er búinn að gefa þessu tíma, er búinn að vera þolinmóður."

„Hann var örlítið meiddur í upphafi móts og var þess vegna ekki eins mikið með í byrjun eins og við ætluðum okkur. Hann er kominn aftur núna, kominn í toppform og fengið nokkra leiki í röð núna og maður sér hann vaxa. Vonandi heldur hann þessi striki áfram því hann hefur gríðarlega hæfileika,"
segir Rúnar.

Freyr verður væntanlega í eldlínunni á morgun þegar Fram sækir Vestra heim í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og fer fram á Kerecis vellinum.
Athugasemdir
banner