„Ég met þetta bara ágætlega. Við hefðum átt að vinna þennan leik fannst mér. Við byrjum fyrri hálfleikinn ekki það vel en í seinni hálfleik komum við með allt annað orkustig inn í leikinn og mættum þeim maður á mann sem gekk vel. Ég myndi segja að við séum óheppnir að fá ekki þrjú stig úr þessum leik í kvöld.“ sagði Davíð Ingvarsson, leikmaður Breiðabliks, eftir 2-2 jafntefli í Garðarbænum gegn Stjörnunni.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 2 Breiðablik
Hvernig lýsir Davíð atburðarásinni þegar hann fær boltann í hendina og dómarinn dæmir víti.
„Ég er að dekka Emil Atla og hann hrindir mér. Ég get ekkert gert í því, mér fannst það vera brot, það má ekkert hrinda manni í teignum. Ég dett og er að reisa mig upp. Um leið og ég er að reisa mig upp þá boltinn í hendina og ég gat lítið gert. Mér fannst bara galið að dæma víti á þetta því höndin er bara í náttúrulegri stöðu. Mér fannst skrítið að hann dæmdi á þetta og ég er ósáttur með það.“
Hvaða útskýringu fékk Davíð?
„Hann sagði við mig að ég þyrfti að standa þetta af mér. Skrítið komment hjá honum. Ég var bara ósammála því.“
Davíð er kominn heim í Breiðablik eftir stutta dvöl úti en hann segir að andlega líðan sé orðin miklu betri hjá honum og að honum finnst gaman að vera komin í Breiðablik.
„Ég er mjög ánægður og andlega líðan orðin miklu betri. Þetta var orðið þungt undir lokin og það er mjög gott að vera kominn heim og spila.“ sagði Davíð Ingvarsson.
Viðtalið við Davíð má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.