Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   fös 11. október 2024 21:54
Brynjar Ingi Erluson
Stoltur af Loga - „Búinn að kalla eftir honum í þetta lið í langan tíma“
Icelandair
Logi skorar annað mark leiksins
Logi skorar annað mark leiksins
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kolbeinn átti slæman dag
Kolbeinn átti slæman dag
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jón Dagur var besti maður leiksins að mati Lárusar
Jón Dagur var besti maður leiksins að mati Lárusar
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson gerðu leik Íslands og Wales upp á Stöð 2 Sport í kvöld, en þeir fóru yfir frammistöðu Loga Tómassonar, varnarleikinn, viðhorfið og margt fleira í settinu.

Kjartan Atli Kjartansson byrjaði á því að spyrja Kára út í frammistöðu Loga, sem kom inn af bekknum í hálfleik og skoraði tvö mörk.

Logi og Kári spiluðu saman í Víkingi í þrjú ár áður en Kári lagði skóna á hilluna og tók við sem yfirmaður fótboltamála hjá félaginu.

Á síðasta ári var Logi seldur til Strömsgodset í Noregi þar sem hann hefur verið að gera góða hluti, en hann nýtti loks tækifærið með landsliðinu í kvöld.

Kári var ótrúlega stoltur af Loga og frammistöðu hans í kvöld.

„Ég er hrikalega ánægður með hann. Ég er búinn að kalla eftir honum í þetta lið í langan tíma eins og þið vitið. Ég veit hvað býr í þessum strák og hann er gríðarlega líkamlega sterkur. Fljótur, áræðinn og mjög góður skotmaður eins og hann sýndi þarna. Hann náttúrulega getur ekki stigið í hægri löppina þess vegna tekur hann þetta utanfótar en það er kraftur í honum og búinn að bæta varnarleikinn mikið. Ég held að hann sé að fara festa sig í sessi þarna,“ sagði Kári á Stöð 2 Sport.

Kári og Lárus Orri Sigurðsson fóru eins og venjulega yfir landsleikinn, en Lárus segir þetta hafa verið blendnar tilfinningar.

„Þetta eru blendnar tilfinningar Kjartan. Auðvitað eru menn að fagna því hvernig liðið brást við og að við hefðum náð stigi út úr þessu á endanum, en við verðum að horfa á stóru myndina. Við gerðum bara jafntefli og sýndum í seinni hálfleik að við hefðum getað unnið þetta lið ef við hefðum komið almennilega til leiks,“ sagði Lárus.

Það hefur svolítið verið saga Íslands að eiga einn góðan hálfleik í leik.

„Þegar ég lít til baka þá er þetta sagan endalausa. Þetta er búið að vera oft mjög gott, einn hálfleikur. Við erum búnir að tala um það fyrr á tímabilinu okkar saman að þetta hafi verið 45 mínútur hingað og þangað en aldrei tekist að tengja saman 90 mínútur. Munurinn á liðinu í fyrri og seinni hálfleik er sjokkerandi, að þeir geti spilað svona og komið út með þessa ákefð. Mikael Egill gerir gríðarlega vel, því við fáum mikinn hraða og 'intensity' úr hans pressu. Hann fær tvö færi og gefur okkur blóð á tennurnar og svo klárar Logi þetta.“

„Það er allt annað að sjá liðið og galið að Wales haldi áfram að spila út frá markverði því þeir enda alltaf á að gefa hann langt. Þeir spila alltaf í eitthvað öngstræti og svo negla þeir honum upp. Spila þetta algerlega upp í hendurnar á okkur,“
sagði Kári sem hélt áfram að tala um varnarleikinn.

Kolbeinn Birgir Finnsson gerði tvö mistök í vörninni sem kostuðu tvö mörk, þar sem hann eltir ekki manninn. Kolbeinn fór af velli í hálfleik og inn kom hetja leiksins, Logi Tómasson.

„Það er bara sofandaháttur í vörninni og tvisvar hjá Kolbeini í þessu marki og einu sinni sem reyndist vera nóg í seinna markinu. Jói minnist á það að átturnar væru að stinga sér inn í þessi svæði og það var búið að vara þá við. Það er það versta í þessu, þegar maður heyrir að þeir vissu nákvæmlega að þeir væru gjarnir á að gera þetta þá verður einhver að elta þá. Auðvitað eiga hafsentarnir að vera með einhverja yfirsýn en í fyrra tilvikinu eru þeir 'fully-committed' með tvo framherja í fanginu,“ sagði Kári og bætti Lárus við að það þyrfti að vera sama viðhorf allan leikinn.

„Markið er alltaf á sama stað. Það færist ekki til og þar er hættan. Kolbeinn er ekki lélegur leikmaður en ef fókusinn og viðhorfið hafi verið það sama í fyrri og seinni hálfleik þá fáum við ekki svona mörk á okkur.“

Kári og Lárus voru sammála um það að Jón Dagur Þorsteinsson hafi verið einn og ef ekki besti maður leiksins, en hann fékk færi undir lokin til að gera sigurmarkið en boltinn hafnaði í stöng.

„Það hefði verið frábært ef hann hefði klárað þetta. Auðvitað kemur Logi inná, skorar tvö mörk og á skilið að vera maður leiksins, en ef við tökum 90 mínútur þá vera þetta okkar langbesti maður í kvöld,“ sagði Lárus.

Kári var beðinn um að lýsa Jóni Degi í nokkrum orðum, sem hann auðvitað gerði.

„Hann er fylginn sér og rosalega leikinn. Hann er ekkert það fljótur en er ótrúlegur þjösnari með gæði, getur skotið og býr alltaf eitthvað til. Hann fiskar aukaspyrnur og gul spjöld á andstæðinga. Þetta er bara æðislegur liðsfélagi get ég ímyndað mér,“ sagði Kári enn fremur.

Næsti leikur Íslands er gegn Tyrklandi á mánudag, en sigur þar gæti mögulega komið liðinu á toppinn í riðlinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner