Chelsea gæti gert tilboð í Garnacho - Man City vill Cambiaso - Dortmund dregur sig úr baráttunni um Rashford
   mið 11. desember 2024 14:30
Elvar Geir Magnússon
Andri spenntur að spila með Emil: Trúum að við getum tengt saman
Andri Rúnar Bjarnason mætti í hljóðver X977.
Andri Rúnar Bjarnason mætti í hljóðver X977.
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Mynd: Stjarnan
Sóknarmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason gekk í raðir Stjörnunnar í síðasta mánuði eftir að hafa átt stóran þátt í því að halda Vestra uppi í deild þeirra bestu. Í útvarpsþættinum Fótbolti.net ræddi hann um skipti sín til Stjörnunnar og fund sem hann átti með Jökli Elísabetarsyni, þjálfara liðsins.

„Ég fékk símtal frá Jökli, þá var hann úti. Hann spurði hvort ég væri til í að hitta hann í kaffibolla og stuttu spjalli. Það endaði svo í einum og hálfum tíma þar sem við vorum bara að spjalla um fótbolta. Þegar ég labbaði út hugsaði ég 'Ég verð eiginlega að koma hingað og vera partur af þessu'," segir Andri sem er hrifinn af hugmyndafræði Jökuls.

„Hvernig hann horfir á fótbolta, hann er ekki endilega að eltast við einhverja aðra þjálfara heldur er að horfa lengra og er í pælingum sem ég held að enginn annar á Íslandi sé í. Við kláruðum þetta mjög snemma eftir þennan fund og ég er mjög spenntur."

Fann aftur mikla gleði og ánægju fyrir fótbolta
Andri, sem er 34 ára, segist ekki hafa farið í neinar viðræður við annað félag þó hann hafi fengið símtöl. Hann er fullur tilhlökkunar og segist hafa fundið mikla gleði fyrir fótboltanum á liðnu tímabili.

„Ef þú hefðir spurt mig í apríl, þegar ég var að æfa á frostnum velli og aðalvöllurinn ekki kominn. Ég var að drepast í löppinni því ég var með beinmar og það hjálpar ekki þegar það er eins og þú sért á takkaskóm á steypu. Þá hefði ég örugglega sagst hætta eftir tímabilið, ég var að drepast alltaf í ristinni og víðar. Svo á miðju tímabili fann ég gleði og ánægju fyrir fótbolta sem ég hef ekki fundið lengi. Það spilaði inn í að ég var alveg meiðslalaus. Mér finnst svo gaman í fótbolta núna,"

Stjarnan er með tvær öflugar og reynslumiklar 'níur' því fyrir hjá félaginu er Emil Atlason. Það verður spennandi að sjá samvinnu þeirra tveggja í fremstu víglínu, þó ekki sé víst hvort liðið muni alltaf spila með þá báða.

„Ég held að hugsunin sé að vera með möguleika á því að fara í þetta í ýmsum leikjum. Við getum líka báðir tengt í kringum okkur og erum góðir í að spila saman. Það verður eitthvað 'rotation' í þessu og svo er ekkert sjálfgefið, maður verður að vinna sér fyrir sæti í liðinu. Það er mikil ákefð á æfingum og margir ungir leikmenn. Ég hef átt góð spjöll við Emil og hann er geggjaður leikmaður, við trúum því að við getum tengt saman," segir Andri.

Stjarnan fékk annan leikmann frá Vestra, Benedikt Warén, og fór Andri fögrum orðum um liðsfélaga sinn.

„Hann er frábær liðsfélagi, ógeðslega góður í fótbolta og er búinn að bæta sig rosalega varnarlega. Hann vinnur mikið fyrir liðið og svo er hann hættur að bara kötta inn og skjóta. Hann er farinn að krossa og linka við líka. Stærsti kosturinn sem ég get nefnt við hann er að hann er einn af fáum ungum leikmönnum sem hlustar ef einhver kemur með góð ráð. Það er ástæða fyrir því að hann tekur svona stórt stökk utan og innan vallar."
Útvarpsþátturinn - Stjörnumaðurinn Andri og Elías um brjálæðið á Skaganum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner