Arsenal er í miklum meiðslavandræðum í fremstu víglínu eftir að Kai Havertz meiddist í æfingaferð í Dúbaí.
Havertz verður frá út tímabilið og bætist á meiðslalistann með sóknarleikmönnunum Bukayo Saka, Gabriel Martinelli og Gabriel Jesus sem urðu allir fyrir meiðslum á síðustu tveimur mánuðum.
Arsenal mistókst að landa framherja í janúarglugganum þrátt fyrir tilraun til að kaupa Ollie Watkins, en liðið var meðal annars orðað við Dusan Vlahovic og Randal Kolo Muani.
Leandro Trossard, Raheem Sterling og Ethan Nwaneri eru því einu sóknarleikmennirnir sem eru við fulla heilsu í leikmannahópi Arsenal.
Arsenal á framundan leiki við West Ham, Leicester og Nottingham Forest og mun leikjaálagið aukast þegar komið verður í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Því gæti Arsenal reynt að krækja í sóknarleikmenn sem eru samningslausir.
Þar eru ýmis áhugaverð nöfn í boði sem gætu komið til greina sem skyndilausnir fyrir Mikel Arteta þjálfara.
Þar á meðal eru tveir fyrrum leikmenn Arsenal sem eru samningslausir sem stendur, Mexíkóinn Carlos Vela og Spánverjinn Lucas Pérez.
Vela verður 36 ára um næstu mánaðamót og var hann lykilmaður í liði Los Angeles FC í bandarísku MLS deildinni þar til í fyrra. Hann skoraði 11 mörk í 64 leikjum á dvöl sinni hjá Arsenal frá 2008 til 2011.
Pérez er 36 ára gamall og er samningslaus eftir að hafa verið lykilmaður í liði Deportivo La Coruna í næstefstu deild spænska boltans. Pérez skoraði 7 mörk í 21 leik á dvöl sinni hjá Arsenal tímabilið 2016-17.
Aðrir kostir sem koma einnig til greina eru Mariano Díaz, Diego Costa, Maxi Gómez, Wissam Ben Yedder og Kemar Roofe.
Díaz er 31 árs og samningslaus eftir að hafa leikið fyrir Real Madrid og Sevilla síðustu sex ár á meðan Diego Costa er orðinn 36 ára gamall. Diego Costa lék með Gremio í Brasilíu í fyrra við góðan orðstír en hann hrellti varnarlínu Arsenal áður fyrr, sem fremsti sóknarmaður í sterku liði Chelsea frá 2014 til 2017.
Maxi Gómez er samningslaus eftir að hafa leikið fyrir Valencia, Trabzonspor og Cádiz á undanförnum árum en hann er 28 ára gamall og með 32 landsleiki að baki fyrir Úrúgvæ.
Wissam Ben Yedder er samningslaus eftir að hafa raðað inn mörkunum með AS Mónakó í franska boltanum en þessi 34 ára gamli framherji virðist vera á leið til Venezia á Ítalíu.
Að lokum er Kemar Roofe, 32 ára, án samnings eftir fjögur ár hjá Rangers í Skotlandi, þar sem hann skoraði 38 mörk í 102 leikjum. Hann gerði aðeins 2 mörk í 24 leikjum á síðustu leiktíð og fékk ekki nýjan samning.
Arsenal er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur, með 50 stig eftir 24 umferðir - níu stigum á eftir toppliði Liverpool.
Athugasemdir