Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 12. júní 2019 14:30
Arnar Daði Arnarsson
Fjölskyldan missti húsið og bílinn en gott fólk hjá FH kom til bjargar
Böðvar í leik með FH árið 2017.
Böðvar í leik með FH árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Böðvar Böðvarsson leikmaður Jagiellonia Bialystok í Póllandi ólst upp í Hafnarfirðinum og lék með FH upp alla yngri flokka.

Böðvar er gestur Miðjunnar að þessu sinni þar sem hann fer yfir ferilinn bæði með FH, Midtjylland og Bialystok.

Auk þess ræðir hann þá tíma þegar foreldrar hans misstu bæði bílinn og húsið sem þau áttu í Hafnarfirði eftir erfiða tíma í kringum kreppuna. Böðvar er einbirni en faðir Böðvars er í dag 75 ára og móðir hans 65 ára, sjálfur er Böðvar 24 ára.

Enginn vaskur á baðherberginu í 4-5 ár
„Mamma og pabbi komu frekar illa útúr kreppunni, 2007-2008 og við lendum í því árið 2010 að bíllinn er tekinn af okkur um miðja nótt," segir Böðvar í Miðjunni þá taka við erfið ár og fimm árum síðar missir fjölskyldan einbýlishús sem þau hafðu átt í Kinnunum.

Á þeim tíma kemur gott fólk úr FH, eins og Böðvar lýsir þeim og hjálpar fjölskyldunni á erfiðum tíma fjárhagslega.

„Ég á engan pening á þeim tíma til að standast eitthvað greiðslumat," sagði Böðvar sem segir að það hafi legið í loftinu í fjögur til fimm ár að þau væru að missa húsið.

„Foreldrar mínir voru að gera upp húsið í miðri kreppu og við héldum alltaf að við værum að fara missa húsið en það endaði þannig að það var ekki vaskur á baðherberginu í 4-5 ár. Pabbi ætlaði ekki að fara gefa bankanum eitthvað sem við við værum að reyna njóta," lýsir Böðvar ástandinu og segist hafa verið meðvitaður um stöðuna lengi og því hafi þetta ekki komið honum mikið á óvart. Á þessum tíma var Böðvar að ljúka við grunnskólanám og hefja nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði.

„Síðan fær pabbi góða menn til að hjálpa okkur og það endar á því að góðir menn innan FH hjálpa okkur að ná pening fyrir fyrstu útborgun á íbúð. Við borguðum það síðan til baka jafnt og þétt. Ég er ævinlega þakklátur þeim fyrir það."

„Þetta er kannski stærsta ástæðan fyrir því að ég var ekkert með mikið vesen í einhverjum samningaviðræðum við FH eftir að þeir hjálpuðu mér með þetta. Þetta lá persónulega aldrei þungt á mér. Þetta lá meira þungt á foreldrum mínum sem höfðu unnið erfiðisvinnu allt sitt líf og missa síðan allt. Ég var ekki að vorkenna sjálfum mér mikið, ég var alltaf með mitt herbergi," sagði Böðvar og lýsir því síðan hvernig hann hugsaði hlutina á þessum tíma.

„Ég hef alltaf verið þannig, að ég held alltaf að hlutirnir reddist á endanum. Ég vissi alveg að við værum ekkert að fara í einhver undirgöng og sofa þar. Þetta var alltaf að fara reddast á endanum og sem betur fer með hjálp góðs fólks innan FH þá náði það að reddast. Maður sér það kannski meira eftir á, hvað þetta góða fólk í FH þurfti í rauninni ekkert að pæla í þessu en þau komu af fyrrabragði þegar þau fréttu af þessum málum og hjálpuðu mér. Eitthvað sem ég verð ævinlega þakklátur fyrir."

Í æfingaakstri á versta bíl í Evrópu
Eins og fyrr segir þá misstu foreldrar Böðvars bílinn árið 2010 en þá var Böddi nýbyrjaður í Flensborgarskólanum. Bílinn var tekinn um miðja nótt.

„Ég bað pabba um að skutla mér í skólann einn morguninn en þá svaraði hann mér því að bíllinn væri farinn. Það tók mig svona korter að átta mig á því hvað hann væri að meina með því. Þá fattaði ég að bíllinn væri bara alveg farinn frá okkur."

„Ég var að læra fyrir bílprófið á þessum tíma og var nýbúinn að fá æfingaakstur síðan fáum við einhvern versta bíl í Evrópu. Við fáum einhvern '97 Skoda, bíll sem var tveimur árum yngri en ég og kúplinginn og gírskiptingin var í rugli. Ég enda á því að vera mæta á honum í skólann, þetta var kannski ekki besti tíminn til að vera missa bílinn, ekki það að það sé einhverntímann góður tími til að missa bílinn," sagði Böddi og bætir við að hann hefði alveg verið til í að hafa lært á einhvern annan bíl í æfingaakstrinum.

„Það er allt í orden núna og ekkert vesen fjárhagslega á foreldrum mínum," bætti Böddi löpp við að lokum.

Hægt er að hlusta á Miðjuna með Bödd löpp hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner