Jose Mourinho, stjóri Roma, hefur starfað sem sérfræðingur fyrir Talksport útvarpsstöðina í kringum Evrópumótið.
Mourinho er á því að það hafi verið of mikil ábyrgð sett á herðar hins 19 ára gamla Bukayo Saka í gær þegar England tapaði gegn Ítalíu í úrslitaleik Evrópumótsins.
Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni og var Saka síðastur á vítapunktinn fyrir Englendinga. Gianluigi Donnarumma varði frá honum.
„Það er of mikið fyrir ungan strák að hafa allt á sínum herðum á þessu augnabliki," sagði Mourinho.
Portúgalinn ákvað að blanda Luke Shaw, markaskorara Englands í gærkvöld, inn í umræðuna. Mourinho er fyrrum stjóri Shaw hjá Manchester United, en Mourinho var óhræddur að skjóta á Shaw opinberlega þegar hann var að þjálfa hann.
Mourinho náði ekki því besta út úr vinstri bakverðinum, en Ole Gunnar Solskjær hefur gefið leikmanninum meira traust.
„Ég veit ekki hvort eigi að skella skuldinni á Southgate eða ekki. Stundum gerist það að leikmenn sem eiga að vera þarna, þeir eru ekki þarna. Leikmenn sem eiga að vera þarna, þeir hlaupa frá ábyrgðinni."
„Hvar var Sterling? Hvar var Stones? Hvar var Shaw?" sagði Mourinho en hann er á því að það hafi verið erfitt fyrir Sancho og Rashford að taka vítaspyrnur eftir að hafa varla snert boltann.
Sjá einnig:
Shaw þreyttur á Mourinho: Hugsar mikið um mig
Athugasemdir