mán 13. mars 2023 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Walker-Peters varð fyrir fordómum - Samfélagsmiðlar gagnrýndir
Kyle Walker-Peters.
Kyle Walker-Peters.
Mynd: EPA
Kyle Walker-Peters, bakvörður Southampton, varð fyrir kynþáttafordómum eftir leik liðsins gegn Manchester United í gær, sunnudag.

Hinn 25 ára gamli Walker-Peters birti síðast færslu á Instagram fyrir viku síðan en eftir leikinn í gær fóru rasistarnir á stjá undir þeirri færslu.

Southampton segist hafa tilkynnt fordómana til lögreglunnar og til Meta, sem á Instagram.

Southampton gagnrýndi samfélagsmiðla harkalega í tilkynningu sinni um málið.

„Í febrúar 2021 gaf félagið út yfirlýsingu um að einn af okkar ungu leikmönnum hefði orðið fyrir andstyggilegum kynþáttafordómum eftir leik gegn Manchester United."

„Meira en tveimur árum síðar erum við í nákvæmlega sömu stöðu: Með vont bragð í munninum og vonsvikin yfir hegðun fólks á netinu sem talar á niðrandi hátt um leikmenn vegna húðlitar þeirra."

„Það sem er jafn pirrandi er skortur á þýðingarmiklum aðgerðum á þessum tveimur árum frá samfélagsmiðlum sem leyfa slíku hatri að viðgangast."

Ummælin frá rasistunum fengu að standa í langan tíma áður en þau voru tekin niður. Málið er núna á borði lögreglunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner