Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 13. apríl 2019 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Hazard: Hudson-Odoi er framtíð Chelsea
Mynd: Getty Images
Eden Hazard telur Callum Hudson-Odoi vera framtíð Chelsea en ungstirnið hefur verið að springa út undanfarna mánuði. Hann fékk að spila sinn annan byrjunarliðsleik í úrvalsdeildinni og stóð sig vel í 3-0 sigri gegn West Ham.

Chelsea hélt framherjanum innan raða sinna í janúar þrátt fyrir nokkur tilboð frá Bayern München og stefnir félagið á að framlengja samning hans.

„Hann er framtíð Chelsea. Ég er búinn að segja það við hann. Hann er ennþá ungur en þegar maður horfir á hann spila er eins og hann búi yfir 10 ára reynslu," sagði Hazard við Sky Sports.

„Það er frábært að vinna með honum því hann er metnaðarfullur og góður samherji. Hann býr yfir miklum gæðum og er að brjóta sér leið inn í liðið þrátt fyrir að ég, Willian og Pedro séum allir hérna líka."

Hazard var einnig spurður út í Maurizio Sarri sem hefur legið undir mikilli gagnrýni og er ekki í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Chelsea sem stendur.

„Ég hef alltaf sagt að hann er stórkostlegur stjóri. Hann kom til félagsins með miklar breytingar, það er ekki auðvelt að spila eftir hans kerfi. Við erum nýbyrjaðir að læra á þetta kerfi, það mun taka meira en eitt tímabil.

„Við þurfum meiri aðlögunartíma en okkur gengur þó ekki illa. Við erum í fínni stöðu í deildinni, komumst í úrslitaleik deildabikarsins og getum ennþá farið alla leið í Evrópudeildinni."


Þeir félagarnir verða eflaust í eldlínunni í stórleik helgarinnar sem fer fram á morgun. Chelsea gerir sér þá ferð á Anfield og þarf sigur í Meistaradeildarbaráttunni.
Athugasemdir
banner