,,Það verður fínt að koma og stilla saman strengina fyrir leikina á móti Sviss og Albaníu," segir Sölvi Geir Ottesen landsliðsmaður um vináttuleikinn gegn Færeyjum annað kvöld.
Sölvi Geir samdi á dögunum við Ural í Rússlandi og hann hefur hafið æfingar þar.
,,Það eru búnar að vera erfiðar æfingar sem er fínt. Ég þarf að koma mér í form. Ég er ekki búinn að spila fótbolta mikið en þetta er búið að vera fínt í alla staði."
,,Ég er ekki búinn að spila fótboltaleik síðan í maí þannig að ég er ekki í sérstöku leikformi. Vonandi fæ ég mínútur á móti Færeyjum til að koma mér í smá leikform."
Sölvi Geir spilaði með FC Kaupmannahöfn áður en hann gekk í raðir Ural.
,,Ég held að rússneska deildin sé mun sterkari en danska deildin. Toppliðin í Rússlandi eru mjög öflug og eru með heimsklassa leikmenn innanborðs. Þetta er mjög sterk deild og spennandi fyrir mig að spila á móti svona sterkum leikmönnum."
Sölvi mun setjast á skólabekk á næstunni og læra rússnesku.
,,Ég er með það í samningnum að ég eigi að læra rússnesku en ég veit ekki hvernig það á eftir að fara," sagði Sölvi hlæjandi.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir