Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   sun 13. október 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Carsley býst við sterkum viðbrögðum
Harry Kane snýr aftur eftir smávægileg meiðsli.
Harry Kane snýr aftur eftir smávægileg meiðsli.
Mynd: EPA
Carsley hefur þrjá leiki í viðbót til að sanna sig í kapphlaupinu um þjálfarastöðu enska landsliðsins.
Carsley hefur þrjá leiki í viðbót til að sanna sig í kapphlaupinu um þjálfarastöðu enska landsliðsins.
Mynd: EPA
Lee Carsley bráðabirgðaþjálfari enska landsliðsins viðurkennir að næsti leikur gegn Finnlandi sé leikur sem liðið þarf að sigra eftir óvænt tap á heimavelli gegn Grikklandi á fimmtudaginn.

Carsley tefldi fram afar sóknarsinnuðu liði en var ekki með neinn týpískan framherja gegn Grikkjum og mislukkaðist sú tilraun. Englendingum tókst ekki að skapa mikið í 2-1 tapi.

Markavélin og landsliðsfyrirliðinn Harry Kane var fjarverandi vegna meiðsla en er búinn að ná sér og ætti að vera í byrjunarliðinu í Helsinki.

„Það getur verið mikilvægt að prófa nýja hluti og ég tel mig hafa lært ýmislegt af þessari reynslu, en ég býst við að tefla fram hefðbundnara byrjunarliði annað kvöld," sagði Carsley á fréttamannafundi í gær.

„Við höfum ekki unnið stórmót síðan 1966 þó að við höfum nokkrum sinnum komist nálægt því. Þetta er staðreynd sem við verðum að samþykkja og það er mikilvægt að prófa nýja hluti í tilraun til að bæta möguleikana á því. Ég mun ekki hika við að gera fleiri tilraunir í framtíðinni."

Búist er við að Carsley geri umtalsverðar breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Finnum og vill hann sjá jákvæð viðbrögð frá sínum mönnum.

„Það mikilvægasta á þessum tímapunkti eru viðbrögðin. Við vitum að við getum gert mun betur heldur en í síðasta leik og ég býst við sterkum viðbrögðum frá strákunum."

England er í öðru sæti síns riðils í B-deild Þjóðadeildarinnar, með 6 stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar. Grikkir tróna í toppsætinu með 9 stig en einungis toppliðið tryggir sér þátttökurétt í A-deild á næsta ári.

Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í liði Írlands heimsækja topplið Grikkja í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner