Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 14. febrúar 2020 09:35
Magnús Már Einarsson
Haaland hlær að sögusögnum - Hafnaði Man Utd ekki vegna peninga
Mynd: Getty Images
Norski framherjinn Erling Braut Haaland segir ekki rétt að hann hafi ákveðið að ganga í raðir Borussia Dortmund frekar en Manchester United vegna peninga.

Hinn 19 ár gamli Haaland hefur raðað inn mörkum með Dortmund síðan hann kom til félagsins frá Salzburg í janúar. Manchester United var eitt þeirra félaga sem vildi fá Haaland í sínar raðir en félagið vildi ekki setja inn riftunarákvæði í samningih hans líkt og Dortmund.

Haaland hefur hins vegar blásið á orðróm þess efnis að peningar hafi orðið til þess að hann hafi valið Dortmund frekar en Manchester United.

„Nei. Þeir sem eru að skrifa þetta þurfa að útskýra þetta fyrir mér ef þeir hitta mig," sagði Haaland í viðtali við Viasport í Noregi.

„Það er frekar fyndið að ég fái þennan stimpil. Mitt nánasta fólk veit að ég er ekki svona. Þetta er mjög fyndið."

„Þegar tímabilinu lauk fóru ég og pabbi minn að ræða saman. Á þeim tímapunkti minntist hann ekki á Dortmund. Síðan spurði ég hann, 'Hvað með þetta félag? Það væri gott.' Þá sagði hann: 'Við sjáum til."

„Þetta varð allt í einu möguleiki og ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu allan tímann. Viðræðurnar gengu snuðruaust frá minni hálf. Ég vil bara spila fotbolta og skipti mér ekki af viðræðunum fyrr en eftir að tímabilið var hálfnað. Ég hafði ekki mikið með þær að gera. Þetta snerist um að finna besta félagið fyrir mig."


Mino Raiola er umboðsmaður Haaland en hann hefur oft fengið gagnrýni í gegnm tíðina. Haaland hefur komið honum til varnar.

„Hann er bestur í heimi í því sem hann gerir. Svo einfalt er það. Hann er besti umboðsmaðurinn. Hann fær oft neikvæða umfjöllun og það er líklega af því að fólk kann ekki vel við hann því hann hefur staðið sig svo vel fyrir þá sem hann vinnur fyrir. Hann hefur hjálpað mér mikið og það er gott að hafa hann með sér," sagði Haaland um Raiola.
Athugasemdir
banner
banner
banner