Liverpool og Man Utd á eftir Simons - Sancho áfram hjá Chelsea - Real Madrid hefur áhuga á Rodri
   mán 14. apríl 2025 17:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Helgi hreinskilinn: Var virkilega svekktur og hundfúll út í Sölva
Var í byrjunarliðinu í gær.
Var í byrjunarliðinu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stígur náði að koma boltanum fram á Helga.
Stígur náði að koma boltanum fram á Helga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kláraði framhjá Steinþóri.
Kláraði framhjá Steinþóri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnið góða.
Fagnið góða.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi velur liðið.
Sölvi velur liðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur er með fullt hús eftir tvo leiki.
Víkingur er með fullt hús eftir tvo leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Helgi Guðjónsson skoraði og lagði upp í sigri Víkings gegn KA í gær. Hann ræddi við Fótbolta.net um leikinn og ýmislegt annað.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 4 -  0 KA

Góð byrjun auðveldaði verkið
„Mér leið bara vel komandi inn í leikinn, fannst við vera vel gíraðir, breyttum aðeins um leikkerfi og komum held ég smá á óvart til að byrja með. Við vorum í 4-3-3 til að byrja með og breyttum nokkrum áherslum sóknarlega milli leikja, held að það hafi hjálpað okkur til að eiga við þeirra varnarkerfi; hjálpaði klárlega í uppspilinu. Við skorum tvö mjög góð mörk í byrjun og það setur svolítið tóninn fyrir leikinn; slekkur svona smá trú í þeim í finnst mér, þótt þeir hafi verið að berjast á fullu og læti í þeim. Mér fannst við ná nokkuð þægilegum tökum á leiknum og með þriðja markinu var þetta nokkurn veginn 'game over'," segir Helgi.

Helgi lagði upp fyrsta mark leiksins á Valdimar Þór Ingimundarson og skoraði svo fjórða mark leiksins í seinni hálfleik. Helgi var ekki í byrjunarliði Víkings í leiknum gegn ÍBV í fyrstu umferð deildarinnar, og felur hann það ekkert að hann var ósáttur við þjálfarann sinn.

„Ég verð að segja eins og er að ég var virkilega svekktur og hundfúll út í Sölva. En hann tekur ákvarðanir, sagði að þetta hafi verið taktísk ákvörðun og ég virði það bara. Ég ákvað að koma bara klár inn í leikinn gegn ÍBV og hjálpa til við að klára hann. Það hafðist sem betur fer."

Rólegur í afgreiðslunni
Stígur Diljan Þórðarson lagði upp markið á Helga í gær. Helgi slapp inn fyrir vörn KA og setti boltann framhjá Steinþóri Má Auðunssyni í marki KA.

„Mér líður mjög vel þegar ég er að koma einn í gegn og veit nokkurn veginn hvað ég ætla að gera, er búinn að skoða markmennina áður, sé hvernig þeir mæta út í einn á einn stöðurnar og svoleiðis. Mér leið ekki illa í gær þótt að slúttið hafi ekki verið út í horn. Ég var bara rólegur."

Virkilega vel gert hjá Stíg
Var eitthvað í undirbúningi Stígs sem setti þig upp á tærnar að hlaupa af stað í gegn?

„Ég sá hversu agressífur hann var, veit hvernig leikmaður hann er. Þegar menn eru eitthvað aðeins 'sloppy' á boltann þá mætir hann mjög ákveðinn og ég hafði trú á því að hann myndi ná að pota í boltann og setja hann í átt að markinu. Ég ákvað að leggja aðeins fyrr af stað heldur en Rodri sem var nálægt mér. Það var virkilega vel gert hjá Stíg hvernig hann náði að pota boltanum inn fyrir."

Helgi hefur síðustu ár verið Víkingum gífurlega mikilvægur, komið inn á og skorað mikilvæg mörk og núna svaraði hann með góðri frammistöðu eftir að hafa ekki fengið að byrja leikinn á undan.

Vill bara spila, sama hvar
Utan frá virðist þú búa til smá hausverk fyrir þjálfarana með þessum eiginleika. Óttastu að það haldi áfram þannig að þú sért ekki fastamaður af því þú ert það góður að koma inn í liðið og svara fyrir það ef þú byrjar ekki?

„Ekki beint. Þetta er mjög fín spurning og kannski eitthvað til að velta fyrir sér fyrir aðra, en ég er ekkert að pæla í því. Ég vil bara fá að spila fótbolta og verð bara að treysta þjálfurunum fyrir því hvað þeir telja að sé best fyrir liðið. Ég hef fulla trú á því sem ég get gert, hvort sem það sé að koma inn á eða byrja leikina. Ég tel mig vera það góðan og öflugan að ég eigi að geta byrjað í liðinu, hvar sem það er á vellinum af því ég get leyst margar stöður. Ég er ekkert fastur á því að vilja vera bara frammi eða bara á kanti, ég gæti alveg tekið að mér að leysa flestallar stöður. Ég myndi helst ekki vilja vera bakvörður, en í einn og einn leik þá er það ekkert mál og ég tek það bara að mér með glöðu geði."

„Ef ég er að koma inn á þá vil ég nýta þær mínútur í að reyna skora eða leggja upp. Ef við erum í því að þurfa að klára leikinn þá verst ég fyrir liðið og reyni að hjálpa liðinu að sigla sigrinum heim. Þetta snýst um að vinna."


Ekkert besti völlur í heimi
Næsti leikur Víkings er útileikur gegn ÍBV í Mjólkurbikarnum. Sá leikur fer fram á Þórsvelli í Vestmannaeyjum á fimmtudag og hefst klukkan 16:00.

„Mér líst vel á þann leik. Þetta verður hörkuleikur, hart barist og ég hef heyrt að þetta sé ekkert besti völlur í heimi sem við munum spila á, en við erum klárir í það, höfum margoft spilað á alls konar grasvöllum og erum öflugir á grasi. Ég hef fulla trú á okkur í því verkefni og við ætlum að klára það," segir Helgi.
Athugasemdir
banner
banner