Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur var ánægður með sigur sinna manna í rokinu í Grindavík.
Lestu um leikinn: Grindavík 1 - 3 Víkingur Ó.
„Ég er mjög ánægður. Leikurinn var 50/50 allan tímann og við vorum að spila rosalega vel varnarlega, skipulagðir og agaðir. Við nýttum okkar færi og það skildi liðin að," sagði Ejub.
Eftir leiðinlegan fyrri hálfleik komu Víkingar af miklum krafti inn í síðari hálfleikinn og skoraði tvö mörk á skömmum tíma. Ejub hafði fá svör yfir því hvað gerðist í upphafi seinni hálfleiks.
„Þegar stórt er spurt. Ég veit það ekki, þetta var bara venjulegur leikur. Svona er bara fótbolti og þú veist aldrei hvað kemur næst."
Víkingur hefur verið duglegt á leikmannamarkaðinum undanfarna daga en Ejub býst ekki við að það muni bætast í hópinn áður en glugganum verður lokað á morgun.
„Ég veit ekki hvort við vorum duglegir. Ég hefði helst viljað fá þessa leikmenn í janúar-febrúar. Við erum alltaf opin fyrir rosalega góðum leikmönnum en ég stórefast að það muni einhver koma fyrir gluggalok."
Kwame Quee gekk til liðs við Víking í vikunni og var hann settur beint í byrjunarliðið.
„Ég einfaldlega henti honum inn til þess að sjá hvað ég hef í höndunum. Hann er búinn að standa sig vel finnst mér. Miðað við fyrsta leik í rok og rigningu en hann á eftir að læra fótboltann hér."
Kwame fékk tvö gul spjöld í kvöld og þar með rautt. Ejub fannst það harður dómur og vill sjá þetta aftur.
„Ég ætla ekki að hafa stór orð en mig langar að sjá þetta aftur. Mér fannst þetta rosalega soft fyrir rautt spjald. Kannski sá ég ekki eitthvað sem dómarinn sá og það verður gaman að sjá þetta aftur. Ég myndi allavega að dómarinn myndi labba til hans og gefa honum viðvörun. Þetta er náttúrulega 80 og einhver mínúta og fólk verður smá þreytt. Ég held að góður dómari myndi gera það."
Allt viðtalið við Ejub má sjá hér að ofan.
Athugasemdir

























