Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   mán 14. október 2019 16:12
Elvar Geir Magnússon
Bjössi Hreiðars: Verð alltaf að hafa einn Óla með mér
Sigurbjörn Hreiðarsson.
Sigurbjörn Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn lítur stoltur á tíma sinn og Óla Jó með Val.
Sigurbjörn lítur stoltur á tíma sinn og Óla Jó með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn Hreiðarsson segir að þegar ljóst var að hann yrði ekki áfram hjá Val hafi hugur sinn strax leitað í að næsta skref yrði að vera aðalþjálfari.

„Ég gerði það já," segir Sigurbjörn við Fótbolta.net.

Sú varð svo raunin í dag þegar hann var kynntur sem nýr þjálfari Grindavíkur en liðið féll úr Pepsi Max-deildinni í sumar.

„Þeir höfðu samband um daginn og ég bara tók því mjög opinn. Svo leiddi þetta að því að ég er orðinn þjálfari liðsins. Þetta var bara allt með mjög hefðbundnum hætti," segir Sigurbjörn þegar hann er spurður út í aðdragandann.

Fleiri félög sýndu Sigurbirni áhuga.

„Það voru fyrirspurnir, það er rétt. Mér fannst þetta bara gríðarlega spennandi. Ég var strax mjög heitur og þetta gekk upp. Ég er rosalega spenntur fyrir þessu."

Hvað vill hann gera með Grindavík?

„Ég vil búa til samkeppnishæft lið sem getur herjað að því að fara aftur upp í Pepsi Max-deildina. Grindavík hefur verið viðloðandi efstu deild síðan maður byrjaði í þessum meistaraflokksbolta. Grindavík hefur verið í efstu deild stóran hluta af þeim tíma."

Sigurbjörn var spurður að því hvort hann ætlaði að herja inn á leikmannamarkaðinn til styrkja sitt lið?

„Það eru alveg líkur á því að það verði reynt að sækja inn á leikmannamarkaðinn já," segir Sigurbjörn.

Ólafur Brynjólfsson verður aðstoðarþjálfari en hann og Sigurbjörn þekkjast mjög vel.

„Ég verð alltaf að hafa einn Óla með mér! Í minni þjálfun verður það að vera. Ég þekki Óla Brynjólfs mjög vel. Við erum miklir vinir og hann hefur mikinn fótboltaheila, lifir og hrærist í þessu. Hann hefur mikla reynslu sem þjálfari og hefur þjálfað víða. Hann hefur sterkar og góðar skoðanir á fótbolta. Ég er 100% á því að hann mun gera mjög góða hluti með Grindavík."

Hvernig var viðskilnaðurinn við Val?

„Auðvitað hefði maður viljað gera betur en þetta síðasta árið. Það var farið af stað með meiri væntingar en þetta. Ég lít stoltur á okkar störf. Við unnum allt sem hægt var að vinna á íslandi og nokkrum sinnum hvert mót. Maður er hvað stoltastur yfir því að hafa skapað lið sem spilaði árangursríkan og skemmtilegan sóknarfótbolta. Við skiljum eftir frábæran tíma sem ég er ótrúlega stoltur af," segir Sigurbjörn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner