mið 14. október 2020 08:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Helgi lagði skóna á hilluna 2015 vegna þunglyndis og kvíða - „Fór eins langt niður og ég gat"
Helgi Valur með fyrirliðabandið - úr leik í sumar.
Helgi Valur með fyrirliðabandið - úr leik í sumar.
Mynd: Raggi Óla
Helgi í leik með AIK. Með honum á myndinni er Gini Wijnaldum.
Helgi í leik með AIK. Með honum á myndinni er Gini Wijnaldum.
Mynd: Getty Images
Af landsliðsæfingu 2013.
Af landsliðsæfingu 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Valur Daníelsson lék sem atvinnumaður í áratug og áður var hann í fimm ár á mála hjá Peterborough á Englandi. Helgi lagði skóna á hilluna eftir tímabilið 2015 með AGF í Danmörku en tók skóna af hillunni fyrir tímabilið 2018 og hefur síðan leikið með uppeldisfélaginu Fylki.

Helgi var gestur í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið í síðustu viku og ræddi þar um ferilinn við Jóhann Skúla Jónsson.

Sjá einnig:
Helgi Valur opnar sig: Var aldrei samþykktur sem landsliðsmaður

Helgi ræðir í þættinum um þunglyndi og frammistöðukvíða í tengslum við árin í Portúgal [Belenenses 2013-2014] og Danmörku 2014-15. Hann hætti í fótbolta vegna þessa og hefur ekki rætt um það opinberlega síðan. Helgi gekk í raðir Belenenses frá sænska liðinu AIK.

„Fór eins langt niður og ég gat áður en ég hætti"
„Það var kúltúrsjokk að koma til Portúgal, margt öðruvísi í Skandinavíu en fótboltinn alveg frábær. Ég var bara ekki í réttu ástandi andlega til að halda áfram. Ég spilaði tvo fyrstu leikina á öðru tímabilinu og ætlaði þá að hætta alveg. Þá kom AGF upp í Danmörku."

Jói spurði hvort þetta hefði einfaldlega verið leiði á fótbolta sem olli því að Helgi vildi hætta á þessum tíma.

„Já ég var búinn að vera mikið upp og niður. Hafði aðeins glímt við kvíða og var í rauninni alveg tilbúinn að hætta en við ætluðum samt að búa áfram í Portúgal. Þegar ég ákvað að fara til Danmerkur þá varð fjölskyldan áfram í Portúgal. Þó svo að AGF hafi farið upp um deild og ég hafi spilað þegar ég var heill þá leið mér alls ekki vel og í stað þess að spila eitt ár í úrvalsdeildinni, ég gerði s.s. tveggja ára samning, þá hætti ég. Í stað þess að flytja fjölskylduna til Danmerkur, þar sem ég var viss um að ég myndi ekki njóta þess að spila lengur, þá ákvað ég að hætta þessu."

Er þungt að vinna í umhverfinu sem fótboltinn er og vera ofan á það með frammistöðukvíða?

„Já það tekur á. Það má kannski ekkert vera að væla yfir því þar sem það er náttúrulega lúxus að fá að spila fótbolta."

Má ekki ræða um það að lífið í fótboltanum sé ekki alltaf dans á rósum?

„Já og nei. Ég féll þrisvar sinnum [niður um deild] á ferlinum og var í fallbaráttu nokkrum sinnum og það var oft erfitt andlega. Svo eru utanaðkomandi hlutir og aðrir persónulegir. Þegar ég segi að það hafi verið fótboltinn sem ég var kominn með leið á þá var staðan þannig að ég vildi gera eitthvað nýtt og fór alveg eins langt niður og ég gat áður en ég hætti."

„Andleg veikindi hjá leikmönnum er miklu stærri hlutur en fólk gerir sér grein fyrir en það eru örugglega margir sem vilja ekki tala um það því þeir þéna svo mikinn pening og vilja ekki vera gagnrýndir fyrir það. Það er eins og það er."


Leið verst með að vera ekki í réttu ástandi
Jói spurði Helga næst út í AGF sem félag. Hvernig líkaði Helga við danska félagið?

„Ég fílaði klúbbinn mjög vel. Mér leið verst með að vera ekki í réttu ástandi til að njóta þess og geta gefið af mér. Mér leið illa að ég var ekki 100%. Út af því að ég var ekki meiddur fannst mér það ekki nægilega góða afsökun. Ég var hreinlega veikur. Auðvitað spilar inn í að ég skil fjölskylduna eftir í Portúgal og er einn í Danmörku og er ekki að höndla þetta."

„Allir í kringum klúbbinn og mestmegnið af stákunum snillingar. Tímabilið gekk mjög vel og við förum upp. Það ætti að vera miklu meira jákvætt í kringum þetta. Fyrst við fórum upp var það léttir fyrir mig að tímabilið var gott og að hafa allavega getað hjálpað eitthvað."

„Ég var alls ekki tilbúinn að spila í efstu deild í Danmörku, ekki í þessu ásigkomulagi. Eina ástæðan sem ég fór til AGF í stað þess að hætta var út af því að ég fékk mjög góðan samning og ég vissi ekki hvað ég myndi gera eftir ferilinn. Næsta skref var óvissa, frekara nám og því gerði ég þetta. Þetta var því ekki alveg á réttum forsendum,"
sagði Helgi um tímann hjá AGF.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner