Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano hefur sett „here we go!" stimpilinn sinn á félagaskipti Randal Kolo Muani frá PSG til Juventus.
Gríðarlega mörg stórlið víða um Evrópu voru áhugasöm en Juventus byrjaði snemma og af miklum krafti og vann að lokum kapphlaupið um leikmanninn.
Kolo Muani kemur til Juve á lánssamningi sem gildir út tímabilið en honum fylgir enginn kaupmöguleiki. Kolo Muani mun því snúa aftur til PSG næsta sumar.
Arsenal, Manchester United og Tottenham eru meðal félaga sem sýndu Kolo Muani áhuga en hann er búinn að samþykkja að ganga til liðs við Juventus, sem mun borga full laun leikmannsins yfir lánstímann.
Kolo Muani er 26 ára framherji með þrjú og hálft ár eftir af samningi sínum við PSG. Hann passar ekki í byrjunarliðsáform Luis Enrique þjálfara en þykir gríðarlega hæfileikaríkur.
Hann á 8 mörk í 27 landsleikjum með Frakklandi og mun fljúga til Tórínó síðar í vikunni til að gangast undir læknisskoðun.
Athugasemdir