Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var ekkert of svekktur eftir að lið hans datt úr leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld en hann vildi þó betri frammistöðu frá sínu liði.
Heimamönnum í Real Madrid leið vel í leiknum og skapaði það sér mörg góð færi.
Karim Benzema skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleiknum en það var vitað fyrirfram að Liverpool þyrfti að vinna upp þriggja marka mun.
Það kom aldrei kraftaverk frá Liverpool og tókst Madrídingum að sigla þessu örugglega heim.
„Það er ekkert frábært að vera 5-2 undir ef þú vilt komast áfram og þú þarft sérstaka frammistöðu til þess en við gátum ekki boðið upp á það í kvöld. Real Madrid fékk bestu færin og Alisson varði frábærlega í tvígang. Rétta liðið fór áfram og við verðum að viðurkenna það. Útsláttarkeppnir eru svona. Þetta er ekki það sem við vildum en þetta er það sem við fengum,“ sagði Klopp.
„Þú þarft augnablik í svona leikjum. Ef við skorum í fyrri hálfleiknum þá gefur það okkur neistann en þetta er bara tilgáta. Real Madrid var betra liðið í þremur hálfleikum í þessu einvígi og þannig kemstu áfram.“
„Ef við gerum jafntefli heima og spilum eins og við gerðum í kvöld þá hefðum við sennilega líka dottið úr leik. Við getum ekki komið hingað og vonast eftir því að fá eitthvað. Við undirbjuggum okkur fyrir sérstaka frammistöðu en það varð ekkert úr því.“
„Það er enginn sem hugsar 'hvernig gat Liverpool dottið úr leik' og það er líklega bestu ummerkin um að rétta liðið fór áfram og þannig er það í útsláttarkeppnum,“ sagði Klopp í lokin.
Athugasemdir