„Þetta var hark í dag. Þetta var alls ekki okkar besti leikur. Ég held að það sé alveg hægt að segja að við vorum heppnir í dag að fá þrjú stig.“ sagði Erlingur Agnarsson, framherji Víkings, eftir 1-0 iðnaðarsigur gegn Fram í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 0 - 1 Víkingur R.
Víkingar áttu erfitt með að opna Framarana í kvöld.
„Þeir voru mjög þéttir til baka og voru að beita skyndisóknum sem þeir gerðu vel. Við fundum engar lausnir á því.“
Dómari leiksins, Jóhann Ingi, þurfti að taka stórar ákvarðanir í kvöld sem eru án efa mjög vafasamar. Erlingur viðurkennir að boltinn hafi ekki farið í höndina á Alexi í markinu sem var tekið af Fram í fyrri hálfleik en hann telur að Fram hefði ekki átt að fá víti í seinni hálfleik.
„Það er mikið búið að vera að tala um þetta mark sem þeir skoruðu. Mér skilst að það hafi ekki verið hendi en ég sá það ekki. En það er bara heppni. Síðan skilst mér að þetta hafi ekki verið víti í seinni hálfleik.“
Erlingur er þá spurður út í dómarana í upphafi móts og hvernig honum finnst þessar áherslubreytingar hafa gengið.
„Þetta er mjög spes verð ég að segja. Maður sýnir oft einhver viðbrögð eftir einhverja dóma og það er ekkert persónulegt við neina dómara, þetta gerist bara ósjálfrátt. Ef þetta heldur svona áfram verða bara allir í banni eftir smástund.“
„Ég veit ekki hvort línan sé óskýr en þetta er bara full hart.“ sagði Erlingur Agnarsson, framherji Víkinga, eftir iðnaðarsigur Víkinga á Fram í kvöld.
Viðtalið við Erling má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.