Jóhannes Kristinn Bjarnason, leikmaður KR, skoraði tvívegis í 3-3 jafntefli KR og Vals í gær. Hann skoraði einnig gegn KA og hefur verið í Sterkasta liði umferðarinnar í fyrstu tveimur umferðunum.
Í Innkastinu var rætt um öfluga byrjun hans á mótinu. Magnús Haukur Harðarson fagnar því að Jóhannes sé notaður sem miðjumaður, sem sé hans sterkasta staða.
Í Innkastinu var rætt um öfluga byrjun hans á mótinu. Magnús Haukur Harðarson fagnar því að Jóhannes sé notaður sem miðjumaður, sem sé hans sterkasta staða.
„Hann nýtur svo mikið góðs af því að vera loks að spila sína stöðu. Hann hefur verið að spila vængbakvörð, sem þriðji miðvörður og í alls konar útfærslum hjá KR undanfarin ár. Hann hefur sýnt að hann er frábær skotmaður, hægri eða vinstri skiptir ekki máli, frábær sendingamaður. Auðvitað á hann að spila á miðjunni. Svo finnst mér hann í betra hlaupaformi en hann hefur verið í," segir Magnús.
„Vonandi helst hann heill því hann hefur verið svolítið óheppinn með meiðsli. Hann sýndi það í markinu á Akureyri og aftur núna að þú mátt ekki gefa honum 30 metra skotfæri. Ég samgleðst honum gríðarlega, hann fór ungur út og þetta gæti verið tímabilið fyrir hann að skína."
Jóhannes, sem er tvítugur, kláraði leikinn í gær með fyrirliðabandið og er talað um það í þættinum að hann hafi tekið sig vel út með bandið líkt og pabbi hans, Bjarni Guðjónsson, gerði hjá KR á sínum tíma.
„Jói er með þrjú mörk í tveimur leikjum og þar af tvö glæsimörk auk þess að skora úr víti á 99. mínútu í svona leik. Þetta er ekki auðvelt undir svona pressu. Það sýnir bara hvað hann er tilbúinn í þetta tímabil. Deildin þarf að svona gaurar stígi upp," segir Valur Gunnarsson.
Athugasemdir