lau 15. ágúst 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Karanka fær tíma hjá Birmingham - Níundi stjórinn á níu árum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Aitor Karanka tók við Birmingham City um mánaðarmótin en enska félagið reyndi einnig að fá hann til sín 2017, án árangurs.

Karanka er 46 ára gamall Spánverji sem gerði garðinn frægan sem leikmaður Real Madrid í kringum aldamótin. Hann tekur við Birmingham eftir að hafa stýrt Middlesbrough og Nottingham Forest í Championship deildinni undanfarin ár.

Karanka er níundi stjórinn sem tekur við Birmingham á níu árum en Dong Ren, framkvæmdastjóri Birmingham, segir að félagið ætli að gefa honum allan þann tíma sem hann þarf til að ná árangri.

„Aitor mun fá allan þann tíma og vald sem hann þarf til að leiða þetta félag inn í framtíðina. Ég sagði strax við hann að ég væri ekki að leita að manneskju til að starfa fyrir mig eða klúbbinn, heldur manneskju sem væri tilbúin til að leiða klúbbinn áfram samhliða stjórninni," sagði Ren.

„Í síðustu félagsskiptagluggum höfum við selt tvo stóra leikmenn og við erum með pening til að eyða fyrir upphaf næstu leiktíðar. Við munum fara eftir því sem Aitor segir, við munum styðja við hann og allt sem hann vill gera."

Karanka er sjálfur búinn að segjast vera himinlifandi með nýja starf sitt og var spurður út í vináttu sína við Jose Mourinho eftir að þeir störfuðu saman hjá Real Madrid.

„Hann hringdi í mig til að óska mér til hamingju með starfið. Við höfum alltaf átt í góðu sambandi, þegar hann var hjá Chelsea þá var ég hjá Boro og við fengum góða leikmenn lánaða frá þeim. Vonandi getum við fengið einhverja góða frá Spurs í þetta skiptið," sagði Karanka.
Athugasemdir
banner
banner
banner