
Sif Atladóttir hefur tekið ákvörðun um að leggja landsliðsskóna á hilluna en þetta staðfestir hún á Instagram í kvöld.
Landsliðsferill Sifjar var stórkostlegur í alla staði. Hún spilaði 90 leiki fyrir hönd Íslands og spilaði á fjórum Evrópumótum.
Hún fékk sitt fyrsta tækifæri með A-landsliðinu á Algarve-mótinu í Portúgal fyrir fimmtán árum og hefur síðan þá verið stór og mikilvægur partur af hópnum.
Sif, sem er 37 ára gömul, var í hópnum sem fór á EM á Englandi í sumar og spilaði þar einn leik gegn Belgíu. Hlutverk hennar var mikilvægt og var hún leikmönnum innan handar.
Hún var fyrirmynd hópsins. Á ferli hennar kom hún tvisvar til baka eftir meðgöngu og sýndi að það er svo sannarlega hægt að sinna móðurhlutverkinu og fótboltanum.
Í kvöld greindi hún frá því að hún væri nú búin að leggja landsliðsskóna á hilluna og lét hún nokkur vel valin orð fylgja með.
„Don’t cry because it’s over. Smile because it happened ~ Dr Seuss
Allt tekur sinn enda.
Eftir 15 ár, 90 landsleiki og 4 stórmót þá er kominn tími á að ég hengi upp bláu treyjuna með stolt í hjarta.
Til ykkar allra sem hafa verið hluti af mínu ferðalagi við ég segja Takk."
Ég hef gefið hjarta, líkama og sál í búninginn og hef ég borið hann með stolti.
Það hefur verið minn heiður að spila fyrir ykkur
Takk fyrir mig Ísland," skrifaði Sif á Instagram. Við á Fótbolti.net þökkum fyrir allar minningar með landsliðinu og óskum henni velfarnaðar í framtíðinni. Hún er þó ekki búin að kveðja fótboltann fyrir fullt og allt, enda skrifaði hún í gær undir nýjan tveggja ára samning við Selfoss
Athugasemdir