fim 15. október 2020 20:00
Victor Pálsson
Gonzalo Zamorano yfirgefur Víking Ó. (Staðfest) - Vill spila í efstu deild
Framtíðin á Íslandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framherjinn öflugi Gonzalo Zamorano hefur yfirgefið lið Víkings. Ó í Lengjudeild karla en hann samdi við félagið í annað sinn fyrir leiktíðina.

Gonzalo spilaði vel með Víkingum í næst efstu deild í sumar og skoraði alls 14 mörk í 22 leikjum bæði í deild og bikar.

Ljóst er að Víkingar munu ekki spila í Pepsi Max-deildinni á næsta ári en liðið situr í níunda sæti Lengjudeildarinnar með aðeins 19 stig eftir 20 leiki.

Óvíst er hvort að deildakeppni hér heima verði haldið áfram vegna kórónuveiru faraldursins og er Gonzalo nú frjáls sinna ferða og má semja við nýtt félag.

Spánverjinn hefur áður reynt fyrir sér í efstu deild með ÍA en sumarið 2019 lék hann 20 leiki án þess að komast á blað. Hann samdi við ÍA eftir dvöl hjá einmitt Víkingum árið 2018.

Gonzalo er þessa stundina að glíma við meiðsli og vinnur í því að jafna sig. Hann segist sjálfur vera á heimleið í endurhæfingu og ætlar að eyða tíma með fjölskyldunni.

„Ég er á góðum batavegi en þarf að vera með spelku í nokkrar vikur. Ég þarf ekki á aðgerð að halda og verð 100 prósent klár í desember. Ég mun fara til Spánar og klára endurhæfinguna þar og eyða tíma með fjölskyldunni," sagði Gonzalo í samtali við Fótbolta.net.

Gonzalo fór í kjölfarið yfir tíma sinn hjá Víkingum og útskýrir af hverju samið var um starfslok. Jafnframt er markmið leikmannsins að leika í efstu deild á næsta ári.

„Ég átti frábæra tíma með Víkingum þó að þetta ár hafi verið erfitt fyrir okkur öll. Ég tel mig hafa spilað minn besta fótbolta síðan ég kom til Íslands. Ég skoraði 11 mörk í deild og þrjú í bikarnum."

„Það var best fyrir báða aðila að semja um starfslok. Ég væri til í að fá lið í Pepsi-deildinni eða spennandi verkefni þar sem stefnt er á að komast í efstu deild. Ég vil fá þessa áskorun."

„Markmiðið er að spila á Íslandi, ég er ánægður hér og er búinn að læra aðeins á tungumálið. Ég sé mína framtíð á Íslandi."

Eins og flestir vita er Íslandsmótið í hættu vegna COVID-19 og er óljóst hvort að keppni verði haldið áfram. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir leikmenn að spila í sumar og fengum við stutt orð frá Gonzalo um ástandið.

„Þetta hefur verið erfitt fyrir okkur öll, að æfa á ströndinni einn og að vera í einangrun í 14 daga en við lærum af mistökunum og notum það okkur til hags í framtíðinni. Ég mun ávallt styðja Víking Ólafsvík," sagði Gonzalo að lokum.

Athugasemdir
banner
banner
banner