Arnar Gunnlaugsson nýr landsliðsþjálfari Íslands var spurður út í sína hugmyndafræði á fréttamannafundinum í dag. Hann vill gera íslenska landsliðið óútreiknanlegt svo það geti gert vel í öllum þáttum leiksins.
„Þegar ég tók fyrst við Víkingi var ég upptekinn af því að vilja vera ákveðin gerð af þjálfara, bara einblína á eitthvað eitt. Eftir því sem árin hafa liðið þá þróaðist það og nú vil ég að Ísland verði gott í öllum þáttum leiksins," segir Arnar.
380 þúsund landsliðsþjálfarar
„Við erum þegar með mikið magn af leikmönnum sem eru þegar orðnir góðir og spila í góðum deildum. Ég vil ekki að landsliðið okkar sé skilgreint eftir einhverri einni tegund af fótbolta heldur að við gerum hvað sem er til að ná í úrslit."
„Ég tek við mjög góðu búi af Age Hareide og hans teymi. Það er mjög mikilvægt. Það þarf ekki mikið til að komast aftur á þann stað sem við vorum á. Það þurfa allir að standa saman. Ísland hefur 380 þúsund landsliðsþjálfara sem allir hafa skoðanir og það er frábært. Um leið og hópurinn hefur verið tilkynntur og liðið þá stöndum við öll saman að því að vinna þennan ákveðna leik."
Vinnur ekki rassgat ef þú ert ekki með góðan varnarleik
Margir telja að hausverkur íslenska liðsins sé varnarleikurinn og halda því fram að við eigum einfaldlega ekki nægilega marga góða varnarmenn. Arnar var spurður út í þessa umræðu.
„Ég hef fylgst með þeirri umræðu og er bara ósammála henni. Við þurfum að átta okkur á styrkleikum og veikleikum hvers og eins. Okkar draumahafsentapar á sínum tíma, Kári og Raggi, voru ekki fullkomnir fótboltamenn en við náðum að nýta þeirra styrkleika og takmarka veikleikana. Það er hlutverk teymisins, finna leikkerfi sem hentar. Ef það er eitthvað sem ég hef lært sem þjálfari er að ef þú ert ekki með sterkan varnarleik þá vinnur þú ekki rassgat," segir Arnar.
„Við þurfum að ná tökum á varnarleiknum en við erum með mjög góða varnarmenn. Það þarf bara að finna rétta leikkerfið sem mun henta okkur."
Fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Arnars verða umspilsleikir við Kósovó í mars um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn verður á Fadil Vokrri Stadium í Pristina 20. mars og seinni leikurinn á leikvangi Murcia á Spáni, Stadium Enrique Roca.
Athugasemdir