Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 16. mars 2020 21:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Næstu sex mánuðir mjög mikilvægir fyrir Jóhann Berg
Jóhann Berg Guðmundsson .
Jóhann Berg Guðmundsson .
Mynd: Getty Images
Alex James, blaðamaður á Lancashire Live, tók sig til í hádeginu í dag og svaraði nokkrum spurningum frá stuðningsmönnum Burnley.

Ein spurningin sem send var á hann snerist um Jóhann Berg Guðmundsson.

„Munu örlög JBG verða þau sömu og hjá Defour?"

Það var spurningin. Steven Defour átti í miklu basli með meiðsli er hann lék með Burnley og síðasta sumar var hann leystur undan samningi hjá félaginu svo hann gæti farið aftur til Belgíu. Á þessu tímabili hafa meiðsli leikið Jóhann Berg grátt.

James svaraði spurningunni og sagði: „Þetta hefur verið pirrandi fyrir hann og félagið. Það sem við getum ekki gleymt er að hann byrjaði tímabilið mjög vel og skoraði í sigri í fyrsta leik. Hann leit svo vel út þegar hann sneri aftur gegn Peterborough í FA-bikarnum."

„Stóra spurningin er sú hvort að hann geti haldið áfram að spila vel þegar hann snýr aftur. Ef hann getur það þá er engin ástæða fyrir því að hann geti ekki verið lykilmaður í nokkur tímabil í viðbót."

„Hann er samningsbundinn félaginu í 18 mánuði í viðbót og næstu sex mánuðir verða gríðarlega mikilvægir fyrir íslenska landsliðsmanninn."

„Persónulega þá held ég að hann eigi enn framtíð hjá félaginu. Hann gefur aðra möguleika en aðrir hægri kantmenn félagsins," segir James.

Jóhann Berg hefur á þessu tímabili komið við sögu í átta leikjum með Burnley í öllum keppnum. Hlé hefur verið gert á ensku úrvalsdeildinni út af kórónuveirunni og er stefnan sett á að byrja aftur í apríl. Vonandi er að Jóhann Berg snúi aftur á völlinn þegar deildin byrjar aftur.
Athugasemdir
banner
banner