fim 16. september 2021 14:30
Elvar Geir Magnússon
Solskjær: Cavani mun hafa mikil áhrif á þessu tímabili
Edinson Cavani.
Edinson Cavani.
Mynd: EPA
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að hann muni ekki flýta sér að skella Edinson Cavani í liðið. Hann hafi lært það á síðasta tímabili hvernig hægt er að ná því besta út úr úrúgvæska sóknarmanninum.

Cavani kláraði síðasta tímabil í fantaformi, hann skoraði tíu mörk í ellefu síðustu leikjunum.

Þessi 34 ára leikmaður gerði nýjan eins árs samning við United eftir þessa frammistöðu. Hlutverk hans hefur verið talsvert í umræðunni eftir að United fékk Cristiano Ronaldo.

Cavani missti af leikjunum gegn Newcastle og Young Boys eftir að hafa fengið högg á æfingu og hann mun heldur ekki spila gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

„Edinson mun vonandi fara að æfa með okkur að nýju eftir helgina, kansnski á mánudag. Það er möguleiki á að hann komi við sögu á miðvikudag," segir Solskjær sem vitnar þar í deildabikarleik gegn West Ham.

„Hann var frábær síðasta tímabil og hafði mikil áhrif. Við teljum að til þess að hann nýtist sem best þurfi hann að vera 100% klár og við flýtum okkur ekki of mikið að setja hann inn."

„Við erum með sterkan hóp svo við getum leyft leikmönnum að ná sér að fullu til að fyrirbyggja frekari meiðsli. Hann getur ekki bilað eftir því að spila og leggur mikið á sig til að koma sér aftur á völlinn. Ég sé fram á að hann muni hafa mikil áhrif."
Athugasemdir
banner
banner