
Alfreð Finnbogason fékk að spila síðustu 20 mínúturnar í 4-2 tapi Íslands á útivelli gegn Slóvakíu er liðin mættust í undankeppni EM fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Slóvakía 4 - 2 Ísland
Alfreð svaraði spurningum að leikslokum og reyndi að útskýra hvað fór úrskeiðis í leik íslenska liðsins.
„Þetta var frábær byrjun á leiknum en svo er svolítið erfitt að útskýra hvað gerist. Þeir skora úr tveimur föstum leikatriðum, horn og víti sem var rosalega ódýrt, og auðvitað hefur það áhrif á leikinn," sagði Alfreð, sem reyndi svo að greina hvað var helst til ama í leik íslenska liðsins í leiknum.
„Mér fannst við þurfa að taka meiri áhættu með boltann og spila meira framávið. Allir boltar sem við unnum fannst mér enda hjá Elíasi. Svo byrjum við seinni hálfleikinn mjög sofandi og fáum á okkur tvö mörk þar sem þeir klára leikinn. Við þurfum aðeins að greina þetta og fara yfir leikinn, en í báða enda þá var þetta ekki nógu gott."
Strákarnir okkar komast því ekki á EM í gegnum undankeppnina en eiga enn möguleika á að komast inn bakdyramegin í vor.
Athugasemdir