
„Svekktir,bæði með úrslit og spilamennsku.“ Sagði Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands að loknu 4-2 tapi Íslendinga í Bratislava í Slóvakíu í kvöld þar sem heimamenn tryggðu sér farseðilinn á EM næsta sumar.
Lestu um leikinn: Slóvakía 4 - 2 Ísland
Slóvakar voru heilt yfir mun betra liðið í leik kvöldsins og áttu þeir sigurinn fyllilega skilinn. Nokkuð sem Aron kom orði að.
„Fullt hrós til Slóvaka. Það var pressa á þeim og þeir bara gerðu þetta virkilega vel. Við höfum verið í þessari stöðu áður og vitum hvernig þeim leið fyrir leikinn og ætluðum að koma hérna og skemma partýið en þeir spiluðu bara það góðan leik að við áttum ekki séns.“
Íslenska liðið komst þú yfir í leiknum með góðu marki frá Orra Steini Óskarssyni. Við það virtist liðið falla aftar og aftar á völlinn og bjóða þar með Slóvökum upp í dans sem lið Íslands réði svo ekki við. Viðbrögð liðsins við því að komast yfir því eitthvað sem þarf að skoða?
„Það er margt sem að þarf að skoða og margt sem þarf að bæta. Við tölum alltaf um að við séum á leið í rétta átt en þetta eru tvö skref til baka finnst mér. Að ná stöðugleika í okkar leik, það er svo mikilvægur partur í því sem við erum að reyna að vinna að. Það er stóri parturinn finnst mér.“
Íslenska liðið er að öllum líkindum á leið í umspil um sæti á EM í mars næstkomandi. Allt þarf þó að falla með liðinu eigi sæti þar að vera raunhæfur möguleiki.
„Við vitum það alveg og vitum hvað við þurfum að gera en það er bara spurning um að sýna það í verki. Það er undir okkur komið og ekki neinum öðrum en okkur sjálfum. Og við þurfum að vera nokkuð heiðarlegir með það. Það er þetta að ná að komast á réttan stað en það tekur orku og það þarf að vinna fyrir því til að ná á þann stað. Við erum auðvitað tilbúnir að leggja það á okkur en það þarf að sýna það í verki. “
Slóvakar fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik eftir þegar Craig Pawsons dómari leiksins dæmdi víti á Kristian Nökkva Hlynsson eftir VAR skoðun. Vítadómurinn virkaði í sjónvarpi og á vellinum ansi "soft" og ekkert endilega réttur. Hvernig horfði atvikið við Aroni?
„Alltof soft finnst mér. Hann er óheppinn og mér finnst Kristian bara vera á undan og ég sagði það við dómarann í hálfleik. Hann talaði um óheppni og að þetta hafi verið svolítið soft en hann hefði þurft að gefa víti á þetta sem ég er bara ekki sammála.“
Sagði Aron en allt viðtalið þar sem farið er yfir komandi leik í Portúgal ásamt öðru má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir