Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   mið 17. janúar 2024 23:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Haddi: Erum ánægðir ef við náum á pappírunum að vera í 4-7
Ég reikna með að héðan í frá munum við slípa okkur meira saman
Ég reikna með að héðan í frá munum við slípa okkur meira saman
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Margeir fer út í háskóla í haust.
Sveinn Margeir fer út í háskóla í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birgir Baldvinsson missti af lok tímabilsins í fyrra þar sem hann fór til Bandaríkjanna í háskóla.
Birgir Baldvinsson missti af lok tímabilsins í fyrra þar sem hann fór til Bandaríkjanna í háskóla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pætur skoraði gegn Club Brugge á Laugardalsvelli.
Pætur skoraði gegn Club Brugge á Laugardalsvelli.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Elmar með bandið í leik með KA árið 2012.
Elmar með bandið í leik með KA árið 2012.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Steini Eiðs.
Steini Eiðs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markinu hjá Pætur gegn Club Brugge fagnað.
Markinu hjá Pætur gegn Club Brugge fagnað.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
KA fór alla leið í bikarúrslit í fyrra og áfram í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.
KA fór alla leið í bikarúrslit í fyrra og áfram í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Hans Viktor kom frá Fjölni.
Hans Viktor kom frá Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðasta leik fyrir jólafrí tapaði KA í æfingaleik gegn Lengjudeidlarliði Þórs. Liðið hóf svo leik í Lengjubikarnum um liðna helgi og tapaði þar gegn Lengjudeildarliði Aftureldingar.

Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Jónasson sem er þjálfari KA liðsins og spurði hann út í stöðuna á KA. Eru þessi úrslit eitthvað sem Haddi hefur áhyggjur af?

„Nei, en það er aldrei gott að tapa fótboltaleikjum. Við áttum skilið að tapa fyrir Þór, hvorugt liðið var með sitt sterkasta lið en maður sá á Þórsurunum að þeir voru með nýjan þjálfara og þeir vildu sanna sig. Á meðan voru mínir menn því miður mjög áhugalausir. Þetta var langt tímabil og þetta var tveimur dögum fyrir jólafrí hjá okkur. Menn gíruðu sig ekki upp í leikinn og við töpuðum bara sanngjarnt," sagði Haddi.

„Ég var ánægður með margt í Aftureldingarleikinum. Þetta er sennilega ósanngjarnasta tap sem ég hef upplifað í langan tíma. Þeir vantaði fullt af leikmönnum hjá þeim og vantaði eitthvað hjá mér. Þeir eiga þrjú skot á markið, markmaðurinn okkar ver ekki eitt skot í leiknum og tekur ekki eina fyrirgjöf. Þeir skoruðu úr öllu, refsuðu okkur; ein aukaspyrna sem breytir um stefnu og tvö mörk úr skyndisóknum. Spilalega var ég ánægður með mjög margt í leiknum. Við áttum meira skilið úr leiknum. Það var gaman að fá Aftureldingu í heimsókn, þeir spila flottan fótbolta og voru flottir þó að það hafi vantað marga hjá þeim."

Á fínasta stað miðað við janúar
Hvernig er staðan á hópnum hjá KA, eru einhver meiðsli?

„Einhver meiðsli en ekki mikil, Bjarni er meiddur og Þorvaldur Daði líka. Útlendingarnir: Harley og Rodri eru ekki komnir. Við erum með stráka í skóla, bæði fyrir sunnan og í Bandaríkjunum. Ingimar Stöle og Hans Viktor voru að koma til okkar. Við erum á fínasta stað miðað við janúar, en ég reikna með að héðan í frá munum við slípa okkur meira saman og verðum með því öflugra lið inni á vellinum."

Ánægðir ef KA er á pappírunum í 4.-7. sæti
Ef horft er í samsetninguna á hópnum, er eitthvað sem þú sérð að þú vilt styrkja?

„Ég tel samsetninguna á hópnum vera nokkuð góða. Eins og við höfum sagt í KA, ef á pappírunum við náum að vera 4-7 þá erum við ánægðir, þá er stjórnin búin að gera vel. Ég tel okkur verða það í sumar. Þó að við viljum gera eins vel og við getum þá er ekki raunhæft fyrir KA í dag að vera með á pappírunum besta eða næstbesta liðið á Íslandi. Víkingur, Valur og Breiðablik eru með sterk lið á pappírunum, við viljum keppa við hin næstu 3-4 fyrir neðan það. Við erum með lið í það. Við erum með flott samsettan hóp á þann hátt að ef einhver dettur út þá veikist liðið okkar ekki mikið. Það er hvergi þar sem er rosalega mikið 'drop' þó að einhver detti úr því byrjunarliði sem við þjálfararnir veljum, ekki einu sinni í markmannsstöðunni. Þar er oft mikill munur en þar erum við í mjög flottri samkeppni. Hópurinn minn er breiður og þolir skakkaföll. Hann er á þann stað sem við í KA viljum miðað við önnur lið deildarinnar. Við erum ánægðir með hópinn."

KA stendur ekki í vegi fyrir þeim sem vilja fara út í nám
Fjallað var um það á dögunum að Sveinn Margeir Hauksson væri á leið til Bandaríkjanna í haust og færi þar í háskóla. Það þýðir að hann mun ekki klára tímabilið með KA. Haddi fékk að vita af því eftir að ákvörðunin var tekin.

„Þegar hann og Biggi völdu að fara út komu þeir til mín þegar þeir voru búnir að ákveða að fara út. Það er auðvitað leiðinlegt fyrir KA og okkur þjálfarana að allt í einu hverfa mikilvægir leikmenn - eru bara hálft tímabilið. Sveinn Margeir er núna í skóla fyrir sunnan og er því ekki með okkur á undirbúningstímabilinu. Þannig er þetta bara, KA hefur sagt að það muni ekki standa í vegi fyrir strákum sem vilja fara í nám. Þá reynir maður bara að gera það besta úr stöðunni. Sveinn Margeir og Biggi Bald verða ekki með okkur allt tímabilið, þannig er staðan. Í fyrra var Birgir orðinn virkilega sterkur hjá okkur áður en hann fór út í skóla. Hann missti af bikarúrslitaleiknum og fleiri leikjum þar sem hefði verið rosalega gott að velja úr öllum hópnum. Svona eru hlutirnir, það eru allir sammála því í KA að við viljum ekki standa í vegi fyrir strákum að mennta sig."

Enginn á leiðinni inn, en ekkert útilokað
Sveinn Margeir klárar ekki tímabilið, Pætur Petersen var seldur til KÍ og það lítur út fyrir að Jóan Símun verði ekki áfram. Þarf Haddi að taka inn mann framarlega á miðjuna eða í sóknarlínuna?

„Nei, ég þarf þess ekki. En við erum svo sem ekki alveg búnir að loka hópnum, við sjáum til. Við erum með rosalega marga miðjumenn, marga sem geta spilað framarlega á miðjunni. Við erum líka með framherja, Sveinn Margeir getur spilað frammi og við erum með Ásgeir og Elfar sem eru báðir heilir. Við ætlum að sjá hvernig hlutirnir þróast. Eins og staðan er í dag þá er enginn á leiðinni inn, en það er ekki útilokað að það komi inn leikmaður ef okkur finnst þess þurfa."

Byrjaði ekki jafnmarga leiki og hann hefði viljað
Pætur var seldur til KÍ, hvernig kom það til?

„Pætur kom hingað með miklar væntingar, og við líka með væntingar til hans. Svo þróuðust hlutirnir ekki alveg eins og hann vonaðist til. Hann byrjaði ekki eins marga leiki og hann vonaðist til og fékk ekki jafnstórt hlutverk. Hann hafði þá áhuga á því að fara heim."

Pætur kom við sögu í öllum leikjum KA nema fjórum á síðasta tímabili og skoraði m.a. gegn Club Brugge í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

„Hann var að fara upp um 'level' að fara frá Færeyjum til Íslands. Hlutirnir ganga ekkert alltaf eins og í sögu á fyrsta tímabili þegar maður gerir miklar breytingar; flytur til nýs lands, nýtt tungumál og kannski allt öðruvísi æfingar og deild. Hann var ekki sáttur með spiltímann sem hann fékk og þegar KÍ Klaksvík sýndi mikinn áhuga þá vorum við tilbúnir að finna lausn með honum. Hann var ótrúlega duglegur og ég hef ekkert út á hann að setja. Hann náði bara ekki alveg að vinna sér sæti í byrjunarliðinu í eins mörgum leikjum og honum þótti ásættanlegt og leitaði því annað. Hann fann flott lið í Færeyjum."

„Erum ekki að bæta við leikmönnum bara af því það koma peningar inn"
Ef horft er í komnir/farnir og horft í mennina sem verða ekki áfram. Er hægt að tala um samdrátt hjá KA?

„Þú ættir kannski að spyrja einhvern annan að því. Þjálfarateymið hefur minnkað aðeins og við erum með færri leikmenn en við vorum með í fyrra. Við erum heldur ekki að fara taka þátt í jafnmörgum keppnum, erum ekki í Evrópukeppni. Þú verður að spila stjórnina út í það (mögulegan samdrátt), en við erum allavega ekki að fara bæta við okkur mörgum leikmönnum."

„Við viljum vera með ábyrgan rekstur. Þó að það komi inn peningar úr Evrópukeppni þá hefur KA ekki áhuga á því að 'henda þeim öllum og vona' í eitt tímabil. Við viljum gera hlutina vel, það er að koma frábær aðstaða og við erum með unga stráka á leiðinni. Við erum ekki að bæta við leikmönnum bara af því það koma peningar inn. Það verður ekki þannig."

„Leikmannalega séð erum við með alveg nógu stóran hóp því við erum ekki að fara í Evrópukeppni. Þó að það sé 1-2 leikmönnum færra en í fyrra þá er það ekkert vandamál."


Mjög flott að geta fengið heimastráka út í þjálfun
Breytingar hafa orðið á þjálfarateyminu. Elmar Dan Sigþórsson er sem dæmi kominn inn í teymið.

„Eiður Ben ákvað að fara suður, fór í Breiðablik og Hólmar Örn fór aftur til Keflavíkur. Þeir voru báðir í yngri flokkunum og hjá meistaraflokki. Það sem gerist núna er að Steini Eiðs er meira hjá mér í meistaraflokknum og Elmar Dan kemur inn í hlutastarf. Svo var markmannsþjálfari að skrifa undir á dögunum, hann kemur inn í stað Branislav sem var. Ofan á það erum við með leikgreinanda. Þetta er aðeins öðruvísi uppsett en það var."

Elmar Dan er fyrrum leikmaður KA, lék síðast með liðinu 2012. Hvernig kom það til að hann var ráðinn?

„Við töluðum saman, hann hafði áhuga á því að koma inn í þjálfun. Hann er með mikla reynslu, var fyrirliði KA, spilaði í Noregi og hefur verið viðloðinn stjórn KA. Hann þekkir félagið inn og út og strákarnir bera virðingu fyrir honum. Við vorum ánægðir þegar við heyrðum af því að hann hefði áhuga á því að koma inn í þjálfun. Formaðurinn heyrði í mér, við spjölluðum um þetta, ég settist niður með Elmari og við fórum yfir hlutina. Okkur fannst flottur grundvöllur til þess að fá hann inn í teymið. Hann hefur mikinn áhuga á því að fara út í þjálfun og okkur fannst þetta gott skref fyrir okkur og hann. Hann er heimamaður og veit allt sem þarf að vita um KA. Það er mjög flott að geta fengið okkar heimastráka út í þjálfun. Það er ekki alltaf auðvelt að fá góða þjálfara til að flytja norður eða út á land yfir höfuð. Því meira sem við getum byggt upp þjálfara, menntað þjálfara og gert þá betri hérna á Norðurlandi því betra er það fyrir okkur," sagði Haddi.

Komnir
Hans Viktor Guðmundsson frá Fjölni
Björgvin Máni Bjarnason frá Völsungi (var á láni)
Dagbjartur Búi Davíðsson frá KF (var á láni)
Hákon Atli Aðalsteinsson frá Völsungi (var á láni)
Kári Gautason frá Dalvík (var á láni)
Þorvaldur Daði Jónsson frá Dalvík (var á láni)

Farnir
Dusan Brkovic í FH
Pætur Petersen til KÍ Klaksvík
Alex Freyr Elísson í Breiðablik (var á láni)
Steinþór Freyr Þorsteinsson

Samningslausir
Jóan Símun Edmundsson
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner