banner
   þri 17. maí 2022 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Henderson: Vanir að spila úrslitaleiki í hverri viku
Mynd: Getty Images

Jordan Henderson fyrirliði Liverpool byrjaði á bekknum í mikilvægum sigri gegn Southampton í kvöld. Honum var skipt inn í hálfleik í stöðunni 1-1.


Jürgen Klopp gerði níu breytingar á byrjunarliðinu á milli leikja en það gerði ekkert til því varaskeifurnar hjá Liverpool stóðu sig hetjulega.

„Við vissum að þetta yrði erfitt en við höfum verið ótrúlega góðir að rótera liðinu allt tímabilið. Strákarnir sem fá minni spiltíma hafa verið að nýta tækifærin sín - maður þarf á öllum leikmannahópnum að halda til að vinna úrvalsdeildina," sagði Henderson að leikslokum.

„Við erum vanir að spila úrslitaleiki í hverri viku, við getum ekki byrjað að fagna eða slaka á fyrr en eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Það verður erfitt að vinna deildina því City tapar eiginlega aldrei stigum. Stundum horfa nokkrir okkar á leiki hjá þeim en það er ekki gaman því þeir eru svo góðir... við skiptum yfirleitt bara yfir á barnarásina."

Liverpool var átta stigum eftir Man City í janúar en er búið að brúa bilið niður í eitt stig.

„Við vorum eftirá í janúar og höfum gert ótrúlega hluti síðan þá. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að vera enn í titilbaráttunni á lokadeginum.

„Við mætum einbeittir í okkar leik og vonum að Villa geri okkur greiða. Við ætlum ekkert að spá í hinum leiknum fyrr en að leikslokum."


Athugasemdir
banner
banner
banner