Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 17. september 2019 19:15
Ívan Guðjón Baldursson
PSG verður án Cavani, Neymar og Mbappe
Mynd: Getty Images
Paris Saint-Germain fær Real Madrid í heimsókn í stórleik í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðin mætast annað kvöld.

Það vantar nokkra leikmenn í bæði lið en heimamenn í PSG eru án allrar sóknarlínunnar. Edinson Cavani og Kylian Mbappe eru enn meiddir í eina til tvær vikur og þá er Neymar í leikbanni.

Mauro Icardi er ekki talinn tilbúinn til að byrja leikinn og því verður Eric Maxim Choupo-Moting eflaust fremstur. Choupo-Moting gekk í raðir PSG í fyrra eftir að hafa fallið með Stoke og þótti standa sig þokkalega í höfuðborginni þrátt fyrir að hafa átt slaka byrjun.

Þetta tímabil hefur farið mun betur af stað fyrir kamerúnska framherjann sem er kominn með þrjú mörk í þremur deildarleikjum.

Meiðslalisti Real Madrid er talsvert lengri en nöfnin á honum eru ekki jafn mikilvæg og hjá Frökkunum.

Marcelo, Marco Asensio og Luka Modric eru allir fjarverandi vegna meiðsla á meðan Sergio Ramos og Nacho eru í leikbanni. Auk þeirra eru Brahim Diaz og Federico Valverde meiddir og þá er Isco tæpur.

Liðin eru með Club Brugge og Galatasaray í A-riðli keppninnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner