Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 17. september 2020 21:01
Fótbolti.net
Dagný: Ekki efnilegar heldur ógeðslega góðar
Icelandair
Dagný fagnar einu af þremur mörkum sínum ásamt Elínu Mettu Jensen
Dagný fagnar einu af þremur mörkum sínum ásamt Elínu Mettu Jensen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagný Brynjarsdóttir var frábær í íslenska landsliðinu sem vann 9-0 sigur á Lettlandi nú rétt í þessu. Dagný spilaði fyrri hálfleik og tókst að skora þrennu. Hún sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir leik.

„Við vorum búnar að undirbúa okkur vel fyrir Lettana og vissum hvernig þær væru eftir að hafa spilað við þær í fyrra. Þetta var allt eins og við reiknuðum með. Við vissum að þetta væri í okkar höndum. Það yrði svæði út á köntunum og þetta snerist svolítið um að fá góðar fyrirgjafir og klára færin sín. Það gekk vel í dag,“ sagði Dagný sem fór af velli í hálfleik.

Aðspurð sagði hún skiptinguna hafa verið gerða af skynsemisástæðum en Dagný er að ná sér af meiðslum sem hún varð fyrir á dögunum og ætlar sér að vera heil heilsu í leiknum gegn Svíþjóð á þriðjudag.

Þá var Dagný spurð út í innkomu nýliðanna en tveir ungir leikmenn, þær Sveindís Jane Jónsdóttir og Barbára Sól Gísladóttir léku sína fyrstu A-landsleiki í kvöld auk þess sem þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Hlín Eiríksdóttir og Guðný Árnadóttir eru allar tvítugar eða yngri og að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu.

„Það er virkilega gaman og flott að fá svona ungar stelpur inn. Það er eiginlega ekkert hægt að tala um þær sem efnilegar lengur. Þær eru bara ógeðslega góðar og gáfu okkur mikið í dag. Það er langt síðan við fengum svona unga leikmenn inn svo þetta var kærkomið. Þær hafa verið að koma ótrúlega vel inn í þetta á æfingum og inn í hópinn og þær sýndu svo sannarlega að framtíðin er björt,“ sagði landsliðskonan öfluga að lokum og hrósaði ungu kynslóðinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner