Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 18. febrúar 2020 18:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Osvaldo byrjaður aftur í fótbolta - Stóð sig vel í dansi
Dani Osvaldo er byrjaður aftur í fótbolta.
Dani Osvaldo er byrjaður aftur í fótbolta.
Mynd: Getty Images
Dani Osvaldo er byrjaður aftur að spila fótbolta eftir að hafa lagt skóna á hilluna fyrir fjórum árum síðan.

Eftir að hann hætti í fótbolta þá stofnaði hann hljómsveit og tók einnig þátt í ítölsku útgáfunni af Allir geta dansað. Fyrir áhugasama þá endaði hann í þriðja sæti í þeirri keppni.

Nú hefur hann hins vegar hafið fótboltaiðkun aftur. Hann er búinn að semja við Banfield í Argentínu og kom hann inn á gegn River Plate í gær. Hann skoraði næstum því glæsimark af tæplega 30 metra færi. Leikurinn endaði 1-0 fyrir River Plate.

Í viðtali árið 2017 sagði Osvaldo: „Ég gat þetta ekki lengur, ég var með tilboð frá félögum í Meistaradeildinni og Kína en ég var byrjaður að hata þessa íþrótt sem ég hafði elskað frá því að ég var barn."

„Knattspyrna á skilið virðingu og mér finnst betra að borða grillkjöt og drekka bjór heldur en að selja þjónustu mína fyrir peninga."

Áður en hann hætti árið 2016 þá hafði hann spilað fyrir 13 félög - hvorki meira né minna. Osvaldo lék meðal annars fyrir Roma, Juventus, Inter og Southampton. Hann stoppaði stutt á hverjum stað, yfirleitt vegna hegðunarvandamála þar sem hann lenti oft uppá kanti við andstæðinga sína, þjálfara og samherja.

Osvaldo er 34 ára og það verður spennandi að sjá hvernig honum farnast hjá Banfield.
Athugasemdir
banner
banner