
Albert Guðmundsson segir að það hafi verið mikil gleði sem fylgdi því að fá SMS fyrir viku síðan þar sem honum var tilkynnt að hann myndi fara með íslenska landsliðinu á HM.
„Það var rætt í Bandaríkjunum að við myndum fá SMS skilaboð með hópnum. Maður var aðeins að refresha símann," sagði Albert léttur við Fótbolta.net í dag.
Albert er á mála hjá hollensku meisturunum í PSV Eindhoven en hann fékk tækifæri í byrjunarliðinu undir lok tímabils eftir mikla bekkjarsetu í vetur.
„Ég er ánægður með hverja mínútu inni á vellinum. Auðvitað hefði ég heilt yfir viljað fá fleiri mínútur en það var erfitt fyrir þjálfarann að breyta liðinu þegar við vorum að vinna hvern einasta leik. Vonandi fæ ég fleiri tækifæri á næsta tímabili. Við stóðum okkur vel á þessu tímabili og þeir gætu þurft að selja leikmenn," sagði Albert sem reiknar með að vera áfram hjá PSV næsta vetur.
„Ef það kemur eitthvað skemmtilegt upp þá myndi ég skoða það en ég held að PSV sé besti stökkpallurinn ef ég fæ að spila. Ég held að ég fái alltaf fleiri tækifæri en á þessu tímabili. Það er bara spurning hversu mörg þau verða."
Athygli vakti að Albert verður númer 4 á HM í sumar en það er treyjunúmer sem varnarmenn eru oftast í.
„Ég fékk ekkert að velja um það. Þú verður að spyrja Sigga út í þetta. Ég ætla ekkert að grenja þetta, ég er bara sáttur að vera í hópnum. Auðvitað er þetta kannski ekki númerið sem ég myndi velja en ég tek því bara."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir