Breiðablik lagði Þór/KA af velli í Bestu deild kvenna í dag með fjórum mörkum gegn engu á Akureyri.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 4 Breiðablik
Karítas Tómasdóttir skoraði tvö, Clara Sigurðardóttir og Natasha Anasii með sitt markið hvor. Hildur Antonsdóttir lagði upp fyrra mark Karitasar.
Nú eru Blikar og Þór/KA komin í frí á meðan á EM stendur og félagsskipta glugginn opnar í júlí. Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks staðfesti í viðtali við Fótbolta.net að Hildur væri á leið til Hollands í atvinnumennsku.
Þá er Alexandra Jóhannsdóttir að snúa aftur til Frankfurt þegar hún snýr aftur af EM með landsliðinu en hún var á láni hjá Breiðablik.
„Hildur Antons er á leið í atvinnumennsku til Hollands. Við vorum með Alexöndru á láni fram að hléinu og Hildur er á leið til Hollands þannig að klárlega verða einhverjar breytingar hjá okkur," sagði Ásmundur.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.